Maxwell er ákærð fyrir að hafa útvegað Epstein, bandaríska auðkýfingnum, ungar stúlkur sem hann svo misnotaði. Hún hafi jafnvel tekið þátt í misnotkuninni sjálf. Réttarhöld yfir henni hófust í New York í dag.
Lara Pomerantz, saksóknarinn í málinu, sagði að Maxwell og Epstein hefðu tælt stúlkur allt niður í fjórtán ára gamlar með peningum og gjöfum til að „nudda“ Epstein. Hann misnotaði þær síðan kynferðislega.
Fullyrti saksóknarinn að Maxwell hefði leikið lykilhlutverk í brotum Epstein sem stóðu yfir í meira en áratug enda hafi hún verið með puttana í nánast öllu daglegu lífi hans.
„Hún var með í þessu frá upphafi. Sakborningurinn og Epstein tældu fórnarlömb sín með loforðum um bjarta framtíð en misnotuðu þau síðan,“ sagði Pomerantz.
Bobbi Sternheim, verjandi Maxwell, dró upp allt aðra mynd af bresku yfirstéttarkonunni. Hún væri hvorki Epstein sjálfur né líktist hún honum. Þess í stað væri hún gerð að blóraböggli fyrir brot hans.
Sakaði verjandinn fjórar konur sem segja að Maxwell hafi kynnt sig fyrir Epstein til að vera misnotaðar um að vera aðeins á höttunum eftir fé úr sjóði sem dánarbú Epstein stofnaði eftir að hann svipti sig lífi í fangelsi árið 2019. Epstein var þá ákærður fyrir mansal.
„Ásakendur hafa hrist peningatréð og milljónir dollara hafa fallið í skaut þeirra,“ sagði Sternheim.
Maxwell neitar allri sök í málinu en henni hefur verið haldið í fangelsi frá því að hún var handtekin í fyrra.