Innlent

Sjö prósent fullorðinna á Íslandi reykir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fyrir nokkrum áratugum var þriðja hvert dauðsfall á Íslandi rakið til reykinga.
Fyrir nokkrum áratugum var þriðja hvert dauðsfall á Íslandi rakið til reykinga. Getty

Í dag reykja um 7 prósent fullorðinna á Íslandi en um er að ræða lægsta hlutfall í Evrópu. Karl Andersen, yfirlæknir á Hjartagátt Landspítalans, segir að þegar hlutfallið verði komið niður fyrir 5 prósent verði hægt að lýsa yfir sigri.

Frá þessu er greint í Frettablaðinu í dag.

Þar segir meðal annars að árið 1968 hafi 60 prósent karla reykt og þriðjungur unglinga árið 1974. Þá sé sala reyktóbaks fimmtungur af því sem hún var árið 1979.

Reykingar eru einn stærsti áhættuþátturinn þegar kemur að hjarta- og æðasjúkdómum og lungnakrabbameini. Hjartaáföllum hefur fækkað um 80 prósent síðustu 30 ár og fækkaði um heil 19 prósent hálfu ári eftir að reykingar voru bannaðar á opinberum stöðum og vinnustöðum.

„Því miður erum við ekki stödd á þeim stað að tóbakssala standi ekki undir sér. Þetta eru ennþá 15 til 20 þúsund manns sem reykja,“ segir Hafsteinn Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Embætti landlæknis.

Mestu hafi munað um skatt- og verðlagningu.

Hafsteinn segir aðeins 1 til 2 prósent framhaldsskólanema reykja.

„Við erum að fá upp svo til reyklausar kynslóðir,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×