Körfubolti

NBA-meistari vann stærsta dansþátt heims

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Iman Shumpert ásamt dansfélaga sínum, Daniellu Karagach.
Iman Shumpert ásamt dansfélaga sínum, Daniellu Karagach. getty/Rich Fury

Körfuboltamaðurinn Iman Shumpert gerði sér lítið fyrir og stóð uppi sem sigurvegari í Dancing with the Stars. Um var að ræða þrítugustu þáttaröð þessa gríðarvinsæla dansþáttar.

Shumpert átti fínan feril í NBA og var meðal annars meistari með Cleveland Cavaliers 2016. Honum er þó fleira til lista lagt en að spila körfubolta. Hann hefur gefið út rapplög og svo er hann liðtækur á dansgólfinu eins og hann sýndi í Dancing with the Stars. Þar dansaði hann með Daniellu Karagach sem er þrautreyndur atvinnudansari.

Það hjálpaði líka einnig talsvert til að eiginkona Shumperts, Teyana Taylor, er atvinnudansari og danshöfundur.

Í úrslitaþættinum dönsuðu Shumpert og Taylor freestyle við lögin Lose Control með Missy Elliott, Ciöru og Fat Man Scoop og Bounce með DJ Clent. Myndband af sigurdansinum má sjá hér fyrir neðan.

New York Knicks valdi Shumpert með sautjánda valrétti í nýliðavali NBA 2011. Hann lék með Knicks til 2015 þegar hann fór til Cleveland. Þar lék hann þrisvar sinnum til úrslita og varð meistari 2016 sem fyrr sagði. Síðast lék Shumpert með Brooklyn Nets, aðeins tvo leiki á síðasta tímabili.

Á ferli sínum í NBA er Shumpert með 7,2 stig og 3,3 fráköst að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×