Innlent

Fyrstu laugar­gestirnir þurftu frá að hverfa í morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Laugardalslaug er fastur punktur í tilveru margra.
Laugardalslaug er fastur punktur í tilveru margra. Vísir/Vilhelm

Fastagestir Laugardalslaugar þurftu margir frá að hverfa snemma í morgun þar sem ekki var hægt að opna laugina vegna undirmönnunar starfsfólks.

Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, segir að ekki hafi verið hægt að hleypa fólki ofan í laugina milli 6:30 og 7:15 þar sem fjórir af níu starfsmönnum sem séu skráðir á vakt í morgun hafi verið veikir.

„Við komumst aftur að því í morgun hvað sundið skiptir marga ótrúlega miklu máli. En það þarf mörg handtök til að ræsa þetta mannvirki á morgnana og það voru einfaldlega of fáir starfsmenn á staðnum til að hægt væri að tryggja öryggi sundlaugargesta. Við urðum því að hafa lokað þarna í 45 mínútúr þar til að nægur mannskapur var kominn á staðinn,“ segir Árni.

Hann segir að einhverjir sundlaugargestir hafi því farið aftur heim, aðrir leitað í aðrar laugar eða þá beðið þar til að hægt væri að opna á ný.

„Ég og aðstoðarforstöðumaður laugarinnar vorum þarna mætt á pósta sem við erum ekki vön að manna. Ég var þarna kominn í gömlu afgreiðsluna til að taka á móti börnum á leið í skólasund. Það var bara virkilega gaman,“ segir Árni í samtali við Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×