Dominykas Milka tryggði Keflavík einkar dramatískan sigur á Val er liðin mættust í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur 79-78 en Milka tryggði sigurinn með síðasta skoti leiksins.
Keflavík byrjar leikinn af miklum kraft. Heimamenn komast snemma í 7-0 með Milka í sjaldséðu stuði á þessu tímabili. Þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður var Keflavík áfram í sjö stiga forskoti, 11-4, og Milka með 9 af þessum 11 stigum heimamanna. Valur nær að brúa bilið niður í eitt stig með sniðskoti frá Kristófer Acox, 13-12, áður en að Keflavík fer aftur á flug og klára fyrsta leikhluta betur sem þeir vinna 19-14.
Gestirnir koma á flugi inn í annan leikhluta og með 0-7 kafla þá ná þeir forystunni í fyrsta skipti í leiknum. Heimamenn voru ekki með í leiknum fyrri hluta annars leikhluta og Valur fékk að skora nánast að vild. Mest náði Valur að komast í 10 stiga forskot þegar leikhlutinn er hálfnaður, 21-31.
Þá skiptir Hjalti, þjálfari Keflavíkur, Þresti Leó inn á parketið fyrir Milka og stemningin hjá heimamönnum gjörbreytist. 12-3 kafli hjá Keflavík tók við og staðan orðin 33-34 eftir tvær tilraunir Þrastar af vítalínunni fóru ofan í. Milka jafnar svo leikinn í næstu sókn og kemur Keflavík aftur yfir með tveimur vítum þegar rúmar 30 sekúndur eru eftir af öðrum leikhluta og heimamenn fóru með þá forystu inn í hálfleikinn, 37-35.
Kristófer Acox byrjar síðari hálfleikinn á huggulegri troðslu til að jafna leikinn. Keflavík tekur aftur forystuna og nær að halda Val í 2-4 stiga fjarlægð þangað til fjórar mínútur eru eftir af þriðja leikhluta en þá kemur Hjálmar Stefánsson og kastar niður þriggja stiga körfu fyrir Val, til að koma þeim yfir í stöðunni 48-49. Næstu 8 stig eru hins vegar Keflavíkur þar sem Valsmönnum gengur illa að að brjóta upp varnarleik heimamanna. Keflavík nær að viðhalda þessu forskoti út leikhlutann sem þeir vinna með 5 stigum, 27-22. Því var sjö stiga munur fyrir lokaleikhlutan, 64-57.
Gestirnir komu rosalega gíraðir inn í loka leikhlutan en þeir gerðu sjö stig á einni og hálfri mínútu til að jafna leikin í 64-64. Leikurinn var hnífjafn eftir þetta þar sem bæði lið skiptast á að setja stig á töfluna og forskotið sveiflast á milli liða. Þegar tvær mínútur voru eftir þá stelur Milka boltanum af Kára og Kristó brýtur í kjölfarið á Milka. Þetta var dómur sem Valsmenn voru alls ekki sáttir með en þeir vildu meina að Milka hefði fyrst brotið á Kára. Milka fer á vítalínuna og kastar báðum skotunum sínum ofan í til að koma heimamönnum í þriggja stiga forystu.
Kári Jónsson jafnar leikinn og kemur þeim yfir með 5 stigum í röð og 45 sekúndur eftir á klukkunni, 76-78. Milka fær tvö víti í næstu sókn Keflavíkur en aðeins annað þeirra fer ofan í. Valsmenn fara svo illa af ráði sínu í lokasókn sinni þar Valur Orri nær að stela boltanum af Kára, heimamenn bruna í sókn með 10 sekúndur á klukkunni, Valur Orri skýtur en boltinn fer ekki á körfuna, Jaka Brodnik reynir að blaka boltanum ofan í en nær því ekki, Milka nær frákastinu og setur boltann ofan í þegar leikklukkan glymur! Þrjár skot tilraunir skráðar á Keflvíkinga á síðustu sekúndu leiksins en tæpara gat þetta ekki verið. Keflavík sigrar með einu stigi, 79-78.
Af hverju vann Keflavík?
Það er erfitt að greina frá því af hverju Keflavík vann þar sem að sigurinn hefði auðveldlega getað fallið öðru hvoru megin í kvöld. Heimamenn unnu leikinn með minnsta mögulega mun á síðustu sekúndubrotum leiksins. Dominykas Milka var kannski það sem skildi liðin af.
Hverjir stóðu upp úr?
Dominykas Milka var lang besti leikmaður vallarins í dag og náði að svara ýmsum gagnrýnisröddum sem hafa verið á kreiki á þessu tímabili. Milka gerði 26 stig ásamt því að taka 13 fráköst. 29 framlagspunktar hjá Milka.
Þröstur Leó verður einnig að fá smá hrós þótt hann spilaði ekki nema 4 mínútur. Þröstur kom inn á í öðrum leikhluta þegar Keflavík virtist ekki geta keypt sér körfu og Valur var við það að stinga af. Þröstur kemur inn með stemningu og orku þegar Valur er átta stigum yfir og heimamenn eru búnir að jafna leikinn áður en Þröstur fer út af 4 mínútum seinna.
Hjá Val var Kristófer Acox bestur með 16 stig og 13 fráköst sem skiluðu honum alls 21 framlagspunkt.
Hvað gerist næst?
Fram undan er hlé á deildinni vegna landsleikja en Keflavík á næst leik gegn KR á Meistaravöllum 3. desember en sama dag fær Valur Íslandsmeistara Þór Þorlákshafnar í heimsókn.
„Við sýndum aðeins það sem við vorum að gera í fyrra.“
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfara Keflavíkur, var afar létt að hafa náð sigrinum að lokum í sveiflukenndum leik.
„Þetta var frábær sigur. Við sýndum á köflum það sem við eigum að vera að sýna, það sem við eigum að vera að gera í 40 mínútur. Svo komu kaflar þar sem menn voru svolítið týndir og töluðu ekkert saman og við unnum ekki sem ein heild en á mörgum köflum vorum við góðir,“ sagði Hjalti í viðtali við Vísi eftir leik.
„Við sýndum aðeins það sem við vorum að gera í fyrra. Við tókum sókn og vörn og vorum þéttir fyrir. Við lögðum okkur fram og fundum hluti sem við höfðum kannski fram yfir þá, 'mismatch' undir körfunni og þessa hluti.“
Milka hefur verið að fá mikla gagnrýni fyrir leik sinn það sem af er tímabili en Milka átti stórleik í kvöld. Hjalti var ánægður með Milka og minnir gagnrýnendur á hvað það er erfitt að gíra sig aftur upp eftir svekkjandi endi á síðasta tímabili hjá Keflavík.
„Hann var mjög góður. Það er bara þannig þegar þú tapar í úrslitum í fyrra þá ertu svolítinn tíma að ná þér í gang. Það er alveg að há okkur í dag. Maður er að reyna að gíra þá upp en þetta kemur. Það er eins með Dom og Hörð og þessa stráka sem voru í fyrra, þetta tekur bara smá tíma,“ svaraði Hjalti, aðspurður út í frammistöðu Milka.
Þröstur Leó Jóhannsson kom inn á völlinn með mikla orku í öðrum leikhluta og Hjalti telur að Þröstur hafi breytt leiknum með innkomu sinni.
„Það skiptir öllu máli, bæði að hafa hann á bekknum og þegar hann kemur með svona kraft inn á völlinn. Hann bara gjörsamlega breytti leiknum,“ sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur.
„0,2 sekúndum frá því að vinna leikinn.“
Það þarf ekki að koma á óvart að Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, var svekktur með að tapa leiknum með minnsta mögulega mun.
„Við spilum ekki vel en við erum samt 0,2 sekúndum frá því að vinna leikinn. Af hverju við töpum í dag er erfið spurning að svara þar sem það munaði ekki nema 0,2 sekúndum,“ sagði Finnur Freyr í viðtali við Vísi eftir leik.
„Mér fannst við spila illa í leiknum. Þrátt fyrir það erum við í ótrúlegri stöðu til þess að komast inn í leikinn og vinna leikinn. Allir okkar leikmenn voru langt frá sínu besta. Við gerðum mikið af mistökum varnarlega en að vera samt nálægt því að vinna er svekkjandi. Burt séð frá þessu þá er svona eitt móment í leiknum sem ég er ósáttur við en fæ alveg góð svör frá dómarateyminu, það er þegar Kári sækir á Milka og mér fannst það augljóst að Milka tjékkar hann með báðum höndum og í staðin fyrir að við fáum tvö víti í bónus þá er brotið á Milka þegar Kári missir skotið og þeir komast þarna einhverjum stigum yfir. Það breytir því ekki að við hefðum getað framkvæmt síðustu sóknina betur og hefðum getað tekið frákastið í lokin en það er grátlegt að tapa þessu leik eftir að hafa verið í séns að vinna hann þrátt fyrir slaka spilamennsku.“
Valsmenn ætla að nýta hléið sem kemur núna í deildinni vel í að fara betur yfir nokkra hluti í spilamennsku sinni. Valur mætir Íslandsmeisturum Þórs þann 3. desember.
„Nú fáum við frí og fáum tíma til að hugsa um eitthvað annað. Maður upplifir það núna að það er svona nýtt vandamál að allt of langt er á milli leikja einhvern veginn og það er erfitt að halda mönum við efnið á milli leikja. Ég veit ekki hvort það sé það eða eitthvað annað en núna kemur pása og við þurfum að herða á ansi mörgum hlutum ef við ætlum að spila betur en við gerðum í kvöld,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson að lokum.