Afturelding komst aftur á sigurbraut eftir fjögurra marka sigur á KA. Þetta var fimmti tap leikur KA í deildinni. KA komst aðeins yfir í blábyrjun leiks annars var Afturelding með yfirhöndina út allan leikinn.
KA tók frumkvæði leiksins og komst yfir 1-2. Það var í eina skiptið sem KA komst yfir í leiknum
Eftir að Afturelding komst betur inn í leikinn átti KA í miklum vandræðum með heimamenn. Sóknarleikur Aftureldingar var afar vel spilandi. Afturelding skoraði sautján mörk í fyrri hálfleik og fór á köflum afar illa með vörn KA.
Þegar tæplega tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum átti Afturelding góðan kafla og skoraði þrjú mörk í röð. Heimamenn voru þá fimm mörkum yfir 16-11.
Á 27. mínútu fékk Ólafur Gústafsson beint rautt spjald. Ólafur fór klaufalega í andlitið á Birki Benediktssyni sem var á leiðinni í skot.
Óðinn Þór Ríkharðsson fékk dauðafæri til að minnka leikinn niður í tvö mörk áður en flautað var til hálfleiks. Óðinn virtist ekki vita að tíminn var að renna út og náði ekki skoti í tæka tíð. Staðan í hálfleik 17-14.
Varnarleikur KA var ekki merkilegur í kvöld. Gestirnir voru langt frá því að vera fastir fyrir. Ólafur Gústafsson sem fékk rautt spjald í fyrri hálfleik var með næst flest fríköst í KA eða tvö talsins.
KA minnkaði leikinn minnst niður í tvö mörk. Afturelding var hins vegar aldrei í vandræðum með að skora þegar þeir þurftu á marki að halda.
Afturelding vann fjögurra marka sigur 33-29.
Af hverju vann Afturelding?
Afturelding átti frábæran leik frá upphafi til enda. Eftir að heimamenn komust 3-2 yfir snemma í leiknum var Afturelding í bílstjórasætinu út allan leikinn.
Sóknarleikur Aftureldingar var afar öflugur. Þegar KA virtist vera að koma sér inn í leikinn þá kom góð sókn hjá Aftureldingu sem skilaði alltaf marki.
Hverjir stóðu upp úr?
Árni Bragi Eyjólfsson fór illa með sína gömlu félaga í kvöld. Árni var markahæsti leikmaður Aftureldingar með 7 mörk.
Andri Scheving stóð vaktina vel í marki Aftureldingar. Andri Scheving varði 15 skot í leiknum.
Óðinn Þór Ríkharðsson var yfirburðar maður í liði KA. Óðinn endaði sem markahæsti maður vallarins með 11 mörk.
Hvað gekk illa?
KA átti í miklum vandræðum með að tengja saman góða kafla. KA fór afar illa með mörg tækifæri til að gera leikinn jafnan. KA átti í miklum vandræðum með að klukka heimamenn sem skoruðu alltaf þegar á þurfti.
Hvað gerist næst?
KA mætir Haukum í KA-heimilinu næsta sunnudag klukkan 16:00.
Afturelding fer í Origo-höllina og mætir Val næsta mánudag klukkan 19:00.
Ánægður með leikinn þrátt fyrir tap
Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var svekktur með fimmta tap tímabilsins.
„Ég var ánægður með sóknarleikinn í kvöld. Varnarlega vorum við ekki nægilega góðir. Upplifun mín var að við vorum sjálfum okkur verstir í seinni hálfleik,“ sagði Jónatan eftir leik.
Jónatan var ósáttur með varnarleik liðsins og hefði viljað sjá meiri baráttu.
„Mér fannst við mjög linir í byrjun og mér fannst þeir skjóta auðveldlega yfir okkur í fyrri hálfleik. Ég hefði líklega átt að bregðast fyrr við og færa vörnina framar.“
„Ég var ánægður með frammistöðu kvöldsins þrátt fyrir tap. Afturelding er hörkulið og er ég bara svekktur að ná ekki í stig því það vantaði lítið upp á.“
Jónatan taldi að hans lið fékk heldur mikið af brottvísunum og því var liðið ekki með margar löglegar stöðvanir.
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.