Fótbolti

Kane orðinn markahæsti landsliðsmaður Englendinga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane tók boltann með sér heim í kvöld.
Harry Kane tók boltann með sér heim í kvöld. Eddie Keogh - The FA/Getty Images

Harry Kane, framherji Tottenham Hotspur og enska landsliðsins, varð í kvöld markahæsti landsliðsmaður Englands frá upphafi ef aðeins eru talin mörk skoruð í keppnisleikjum. Kane skoraði þrennu í 5-0 sigri Englendinga gegn Albaníu í undankeppni HM 2022.

Harry Kane fór þar með upp fyrir Wayne Rooney, en Kane hefur nú skorað 39 mörk í 54 keppnisleikjum fyrir England.

Með mörkunum þrem í kvöld er hann þá kominn með 44 mörk í 66 leikjum fyrir England ef allir leikir eru taldir með. Hann er því búinn að jafna einn mesta markaskorara Englandssögunnar, Jimmy Greaves.

Wayne Rooney er þó enn markahæsti landsliðsmaður Englands frá upphafi ef allir leikir eru teknir til greina með 53 mörk í 120 leikjum.

Þessi 28 ára framherji hefur verið ansi duglegur að skora seinustu ár, bæði fyrir landsliðið og félagslið sitt, Tottenham Hotspur. Illa hefur þó gengið í upphafi tímabils fyrir þennan mikla markaskorara að finna netmöskvana fyrir Tottenham, en mögulega gefur þetta honum sjálfstraustið sem hann þarf til að fara að skora aftur fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×