Erlent

Covid-19 aftur farið að ógna dönsku samfélagi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mette Frederiksen á blaðamannafundinum í dag.
Mette Frederiksen á blaðamannafundinum í dag. EPA-EFE/OLAFUR STEINAR GESTSSON

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur lagt til að danska þingið skilgreini kórónuveiruna á ný sem sjúkdóm sem ógni dönsku samfélagi. Faraldurinn hefur verið á uppleið í Danmörku að undanförnu.

DR greinir frá og vísar í fréttamannafund sem haldinn var í danska forsætisráðuneytinu í dag. Fundurinn var haldinn eftir að yfirmenn heilbrigðis- og sóttvarnarmála í Danmörku voru kallaðir á fund í heilbrigðisráðuneytinu fyrr í dag.

Sóttvarnarnefnd danska þingsins mun taka tillögu ríkisstjórnarinnar fyrir á morgun. Verði hún samþykkt mun ríkisstjórn og sóttvarnaryfirvöld geta beitt samfélagslegum takmörkunum á ný til þess að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar í Danmörku.

Einnig er lagt til að bólusetningarskírteini verði aftur tekið upp til þess að komast inn á veitingahús og skemmtistaði. Danir afléttu öllum takmörkunum vegna Covid-19 þann 10. september síðastliðinn.

Sagði Frederiksen að heilbrigðisyfirvöld hafi áhyggjur á álagi á heilbrigðiskerfið, sem hafi aukist til muna að undanförnu.

Síðustu fimm daga hafa rúmlega tvö þúsund greinst með Covid-19 í Danmörku á hverjum degi.


Tengdar fréttir

Búið að af­létta öllum tak­mörkunum í Dan­mörku

Öllum takmörkunum vegna faraldurs kórónuveirunnar var aflétt í Danmörku á miðnætti. Markar það endalok átján mánaða tímabils samkomutakmarkana í landinu. Ekki er útilokað að skólum í landinu verði lokað fari svo að faraldurinn fari á flug á ný.

Danir af­létta öllum tak­mörkunum 10. septem­ber

Danska ríkisstjórnin hyggst aflétta öllum takmörkunum vegna faraldurs kórónuveirunnar 10. september næstkomandi. Covid-19 verður þá ekki lengur skilgreindur sjúkdómur sem ógnar dönsku samfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×