42,4 aðspurðra segjast hafa fremur miklar eða mjög miklar áhyggjur af því að Míla hafi verið seld erlendum aðilum. Tilkynnt var um það í síðasta mánuði að franska sjóðastýringafélagið Ardian hefði fest kaup á Mílu.

Rétt tæplega þrjátíu prósent segjast hins vegar litlar eða engar áhyggjur hafa og tuttugu og átta prósent segja áhyggjurnar í meðallagi. Ef litið er til munar á milli kynja kemur fram tiltölulega lítill munur en þó eru karlmenn heldur fleiri sem hafa litlar eða engar áhyggjur af gjörningnum.

Áhyggjurnar aukast einnig eftir aldri aðspurðra og þá hafa íbúar höfuðborgarsvæðisins minni áhyggjur af málinu en þeir sem búa úti á landi. Einnig dregur úr áhyggjum fólks á málinu eftir því sem menntunarstigið hækkar.

Ef litið er til stjórnmálaskoðanna kemur í ljós að kjósendur Miðflokksins hafa mestar áhyggjur af sölunni og þar á eftir koma kjósendur Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins. Viðreisnarmenn hafa hins vegar minnstar áhyggjur af viðskiptunum og Sjálfstæðismenn koma þar rétt á eftir.