Körfubolti

Ljónatemjararnir frá Króknum mæta til Njarðvíkur í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigtryggur Arnar Björnsson skorar hér fyrir Tindastólsliðið fyrr í vetur.
Sigtryggur Arnar Björnsson skorar hér fyrir Tindastólsliðið fyrr í vetur. Vísir/Bára

Stórleikur kvöldsins í Subway-deild karla í körfubolta verður spilaður í Ljónagryfjunni í Njarðvík þar sem Tindastólsmenn koma í heimsókn.

Þetta er lokaleikur fimmtu umferðarinnar og þarna eru að mætast liðin sem voru í þriðja (Njarðvík) og fimmta sæti (Tindastóll) fyrir umferðina. Þau eru bæði með sex stig og með sigri í kvöld komast þau upp að hlið efstu liðum deildarinnar.

Leikurinn hefst klukkan 20.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Strax á eftir verður síðan Subway-Körfuboltakvöld á sömu stöð.

Bæði lið Njarðvíkur og Tindastóls töpuðu í síðustu umferð og Njarðvíkingar hafa enn fremur tapað tveimur deildarleikjum í röð eftir þrjá sannfærandi sigra í upphafi móts.

Stólarnir hafa verið sannkallaðir Ljónatemjarar í síðustu heimsóknum sínum til Njarðvíkur því þeir hafa unnið þrjá deildarleiki í röð í Ljónagryfjunni.

Njarðvíkingar unnu síðast heimaleik á móti Tindastól 5. mars 2018 og sá leikur vannst aðeins með einu stigi eftir tvíframlengdan leik. Síðan eru liðnir 44 mánuðir.

Það dugði ekki Njarðvíkurliðinu í fyrra að komast í 22-10 í byrjun annars leikhlutans. Stólarnir unnu annan leikhlutann 30-14 og náðu mest fimmtán stiga forskoti áður en Njarðvíkingar minnkuðu muninn undir lokin.

Tindastóll hefur alls unnið fimm af síðustu sex deildarleikjum sínum á móti Njarðvík en Logi Gunnarsson tryggði eina sigur Njarðvíkingar með magnaðri þriggja stiga körfu í Síkinu á Sauðárkróki í fyrra.

  • Síðustu deildarleikir Njarðvíkur og Tindastóls í Njarðvík:
  • 12. mars 2021: Tindastóll vann 3 stiga sigur (77-74)
  • 10. október 2019: Tindastóll vann 8 stiga sigur (83-75)
  • 25. janúar 2019: Tindastóll vann 1 stigs sigur (76-75)
  • 5. mars 2018: Njarðvík vann 1 stigs sigur (103-102)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×