Neytendur

Bjóða við­skipta­vinum að sleppa við af­greiðslu­kassann

Atli Ísleifsson skrifar
Íslensk fyrirtæki hafa að undanförnu verið að feta inn á þá braut að láta viðskiptavini greiða fyrir vörur á annan hátt en á afgreiðslukassa.
Íslensk fyrirtæki hafa að undanförnu verið að feta inn á þá braut að láta viðskiptavini greiða fyrir vörur á annan hátt en á afgreiðslukassa. Húsasmiðjan

Húsasmiðjan hefur tekið í notkun sérstakt sjálfsafgreiðsluapp þannig að viðskiptavinir geti greitt fyrir vörur um leið og þær eru skannaðar ofan í körfu í verslun. Viðskiptavinir þurfa því ekki að greiða við kassann.

Ekki er langt síðan Krónan tók að feta sig inn á þessa braut þar sem viðskiptavinir geta nú í ákveðnum verslunum skannað vörur sínar og svo greitt fyrir án viðkomu á afgreiðslukassa.

Í tilkynningu frá Húsasmiðjunni segir að nýja appið gildi í öllum verslunum Húsasmiðjunnar og Blómavals. Appið hafi verið í þróun í rúmt ár og sé stór vendipunktur í stafrænni vegferð fyrirtækisins.

Húsasmiðjan

„Húsasmiðjuappið hjálpar viðskiptavinum að nálgast upplýsingar um þúsundir vara, s.s. hvort vara er umhverfisvæn, á meðan þeir versla ásamt því að afgreiða sig sjálfir í gegnum appið með lausn sem kallast „Skanna, borga, út“ . Þannig er mögulegt að komast hratt út úr verslunum framhjá afgreiðslukössum.

Húsasmiðjuappið er einnig þjónustuapp og býður m.a. upp á greiðsludreifingu til allt að 12 mánaða sem hentar við stærri kaup. Þá geta einstaklingar og fyrirtæki í reikningsviðskiptum stýrt lánsheimild sinni þar sem umsóknarferillinn er að fullu rafrænn. Þetta er einstakt á Íslandi og þó víða væri leitað,“ segir í tilkynningunni.

Appið er sagt henta fagmönnum og fólki í framkvæmdum sérstaklega vel, þar sem það bjóði viðskiptavinum upp á að geta verslað í eigin reikning og séð sín afsláttarkjör á vörum um leið og þær eru skannaðar í verslun.


Tengdar fréttir

Sleppa við af­greiðslu­kassann

Viðskiptavinir Krónunnar geta nú í fyrsta sinn hér á landi notað símann til að afgreiða sig sjálfa sem gerir þeim kleift að kaupa inn án þess að koma nálægt afgreiðslukassa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×