Í fréttum Stöðvar 2 og þættinum Um land allt var fjallað um þau áform Oddafélagsins, sem lýst var á Oddahátíð í sumar, að reisa Sæmundarstofu. En hún á ekki aðeins að vera fyrir fræðimenn, þeir vilja að hún verði ferðamannasegull.

„Að það sé viðskiptahlið á þessu líka. Þar eru örugglega möguleikar líka,“ segir Ágúst Sigurðsson, formaður Oddafélagsins og sveitarstjóri Rangárþings ytra.
„Við höfum rætt það við ýmsa aðila, einkaaðila, um hvort þeir sjái tækifæri í þessu hér. Og það stendur ekki á svarinu þar. Það er bara já. Menningartengd ferðaþjónusta gæti verið einhverskonar hliðarafurð af þessu,“ segir Ágúst.
En hafa ferðamenn áhuga á sögu Odda, Sæmundi fróða og Snorra Sturlusyni? Koma ferðamenn í Odda?

„Já, koma mjög margir ferðamenn. Svo margir að við höfum þurft að setja upp skilti að það sé bannað að tjalda hérna,“ svarar Elína Hrund Kristjánsdóttir, sóknarprestur í Odda, þegar við göngum upp á Gammabrekku, sem séra Matthías Jochumsson orti um þegar hann sat Odda.
Markmið Oddafélagsins er að þar rísi menningar- og fræðasetur með stórri kirkju, sem jafnframt þjóni sem 400-500 manna tónleikasalur.
„Hugmyndin er gömul. Þetta er ekkert ný hugmynd. Og þetta er eiginlega alltaf sama hugmyndin. Nú er bara komið að því að reyna að hrinda þessu í framkvæmd,“ segir Ágúst.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins: