Menning

Skildi Skúla Mogensen eftir á jökli á Grænlandi: „Ég sæki ykkur í haust“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Í þættinum Skilaboð blávatnanna fjallar Ragnar Axelsson um bráðnun Jökla á Grænlandi.
Í þættinum Skilaboð blávatnanna fjallar Ragnar Axelsson um bráðnun Jökla á Grænlandi. RAX

„Þegar ég er að skrásetja það sem ég er að gera þá er það yfirleitt í svarthvítu en það var ein ferð sem varð að vera í lit,“ segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson. Hann náði stórkostlegum myndum af bláum vötnum á jökli á Grænlandi og fannst nauðsynlegt að sína fólki litadýrðina.

Í einni af ferðum sínum til Grænlands tók Ragnar eftir því að jökullinn var að bráðna meira en hann hafði áður séð. Leysingavatnið myndaði aragrúa fagurblárra vatna ofan á jöklinum

Með RAX í för voru þeir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Skúli Mogensen athafnamaður. Björgunarsveitarmaður hafði ætlað með í ferðina til þess að halda í Harald á meðan hann gerði mælingar á vötnunum en hann hætti við og Skúli hljóp því í skarðið. Förin var ekki hættulaus.

„Það er ekki hægt að setja mann út svona á jökli án þess að hafa hann í bandi, því ef maður fellur í svona á, og þetta er eins og að standa á blautum spegli, þá færir þú bara niður tvo kílómetra niður í jökulinn.“

Þegar Skúli og Haraldur fóru út úr þyrlunni kvaddi RAX þá með orðunum 

„Ég sæki ykkur í haust“

Frásögn RAX af þessu ævintýri má heyra í þættinum Skilaboð Blávatnanna. Þar má sjá stórkostlegar myndir hans af þessum einstöku bláu vötnum og bráðnuninni á Grænlandi. RAX Augnablik eru örþættir og þáttur vikunnar er tæpar sjö mínútur að lengd.

Klippa: RAX Augnablik - Skilaboð blávatnanna

RAX hefur ferðast mikið til Grænlands og hefur sagt frá nokkrum af þeim ævintýrum í RAX Augnablik. Í þættinum Á borgarísjaka, segir RAX frá annarri ferð þar sem samferðamenn hans tóku áhættu svo hann næði góðri mynd. 

Í þættinum Á flótta undan fárviðri er komið meira inn á þær breytingar sem eru að eiga sér stað á Grænlandi vegna hlýnunar. 

Í þættinum Krakatá, eyjan sem sprakk, fá áhorfendur að kynnast betur Haraldi eldfjallafræðingi sem var með RAX við blávötnin. 

Í þáttunum RAX AUGNABLIK segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson sögurnar á bak við margar af sínum þekktustu myndum. Ragnar hefur starfað á vettvangi í meira en fjörutíu ár og eru sögurnar hans ævintýralegar. Nýr þáttur kemur út á hverjum sunnudegi hér á Vísi og á Stöð 2+. 

Hægt er að sjá alla þættina HÉR á Vísi.


Tengdar fréttir

Sjarmerandi kosningabarátta í Færeyjum

„Að upplifa kosningar í Færeyjum er alveg stórkostlegt,“ segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson sem hefur farið margar ferðir til Færeyjar að mynda á sínum ferli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×