Innlent

Skotveiðimenn skelkaðir og búast við banni við veiðum á rjúpu

Jakob Bjarnar skrifar
Þúsundir skotveiðimanna eru nú að undirbúa sig undir að arka á fjöll 1. nóvember en þá hefst rjúpnaveiðitímabilið. Eða, hefst það? Nú eru blikur á lofti og skotveiðimenn óttast að á fimmtudaginn verði þeim kynnt veiðibann. Einn þeirra er Baldur Guðmundsson sem hér má sjá með bráð sína, hina eftirsóttu rjúpu.
Þúsundir skotveiðimanna eru nú að undirbúa sig undir að arka á fjöll 1. nóvember en þá hefst rjúpnaveiðitímabilið. Eða, hefst það? Nú eru blikur á lofti og skotveiðimenn óttast að á fimmtudaginn verði þeim kynnt veiðibann. Einn þeirra er Baldur Guðmundsson sem hér má sjá með bráð sína, hina eftirsóttu rjúpu. Ásgeir Jónsson

Stjórn Skotveiðifélags Íslands hefur borist boð um að mæta til fundar í umhverfis og auðlindaráðuneytinu á fimmtudaginn. Skotveiðimenn eru sannfærðir um að þar verði þeim kynnt bann við veiðum á rjúpu nú í ár.

Náttúrufræðistofnun metur rjúpustofninn óvenju lítinn nú um mundir; varpstofninn 69 þúsund fuglar og framreiknuð stærð veiðistofns í ár 248 þúsund fuglar. Sem er veruleg fækkun frá því í fyrra þegar sú stærð var metin 280 þúsund fuglar. Ráðlögð veiði er þá var 99 þúsund fuglar eða fimm á hvern veiðimann. 

Til stendur að veiðitímabilið hefjist 1. nóvember og þúsundir veiðimanna fyrir löngu farnir að undirbúa sig fyrir ferð á fjöll með sína haglabyssu og sumir hund. Þeir óttast nú að þetta verði slegið af en harða umræðu má finna um þetta á Facebook-vegg SKOTVÍSs. Þar sem settar eru fram þær kenningar að ráðherra vilji slá pólitískar keilur með banni.

Búast við því að bann verði lagt við veiðum

„Það er óhætt að segja að þeir veiðimenn sem ég hef talað við í morgun séu ósáttir. Það er gildandi reglugerð til þriggja ára um tilhögun veiða á rjúpu; að veiða megi tiltekna daga í nóvember 2019, 2020 og 2021.. Það var reglugerð sem byggð var á vinnu allra þeirra sem að þessu koma; stofnana, ráðuneytis og SKOTVÍS. Þetta átti að skapa fyrirsjáanleika og nokkra sátt. 

Nú er búið að boða til fundar á elleftu stundu og það getur ekki boðað gott,“ segir Baldur Guðmundsson veiðimaður í samtali við Vísi.

Hann segir að það sæki nú að sér sá illi grunur að til standi til að banna veiðimönnum að ganga til rjúpna þetta árið, þrátt fyrir að gögn sýni að veiðar hafi takmörkuð áhrif á afkomu rjúpunnar.

„Það á að rjúfa sáttina. Rjúpnastofninn sveiflast frá lágmarki að hámarki á um það bil 8 ára fresti og hefur gert öldum saman. Við höfum áður farið á límingunum þegar við mælum lágmörk en alltaf tekur rjúpan við sér og fjölgar sér. Allar rannsóknir benda til þess að veiðarnar séu sjálfbærar.“

Sér fyrir sér ali-fugl í jólamatinn

Baldur segir að veiðimenn hafi samviskusamlega lagt Náttúrufræðistofnun Íslands til gögn og fjármagn til rannsókna á rjúpunni, nú í mörg ár – með því að skila veiðitölum og greiða fyrir veiðikort.

„Við höfum farið að tilmælum um hófsemi í veiðum og tekið sölubanni opnum örmum. Nú virðist eiga að nota þetta gegn okkur. Veiðimenn eru vægast sagt gramir vegna þessa. 

Við vonum auðvitað það besta og að þessi fundur á fimmtudag leiði til einhvers góðs. En sporin hræða. Það er fyrst og fremst ömurleg stjórnsýsla að hræra í þessu fyrirkomulagi vikuna áður en veiðar eiga að hefjast. Menn eru búnir að bóka gistingu og jafnvel kaupa veiðileyfi um allt land. Ætli það verði ekki einhver verksmiðjualinn ali-fugl á boðstólnum á aðfangadag þetta árið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×