Neytendur

Sögu­leg verð­hækkun hjá Domino‘s

Atli Ísleifsson skrifar
Þúsundkall ei meir.
Þúsundkall ei meir.

Domino‘s á Íslandi hefur hækkað verð á hinu vinsæla þriðjudagstilboði úr þúsund krónum í 1.100 krónur. Ljóst má vera að margir viðskiptavinir Domino‘s ráku upp stór augu í dag þegar þeir tóku eftir hækkuninni, enda hafa fjölmargir haft samband við fréttastofu til að segja frá þessum tímamótum.

Magnús Hafliðason, forstjóri Domino‘s hér á landi, segir það ekki skemmtilegt að hækka verð en að hjá því yrði ekki komist lengur eftir að hafa haldið verðinu óbreyttu í um ellefu ár.

„Þetta tilboð er ekki nýtt af nálinni. Við kynntum það til leiks 2010 og hefur verið óbreytt síðan. Á sama tíma hefur allt hækkað – launavísitalan um einhver níutíu prósent og verðlagsvísitalan um fjörutíu prósent eða svo. Ef þú myndir uppreikna verðið frá 2010 yrði verðið 1.400 krónur, ef við hefðum haldið í við verðlag.“

Enn besti díllinn

Magnús segir Domino‘s þó vera á því að þetta sé enn besti díllinn í bænum. „Þetta er aldrei gaman en einhvern tímann taka svona hlutir enda.“

En hvað, heldurðu að þetta muni kosta 1.100 krónur annan eins tíma og var með þúsund kallinn?

„Ég get ekki lofað neinu en mikið væri það nú skemmtilegt. Um tíu ár í þúsund kalli og ellefu ár í ellefu hundruð krónum. En við verðum bara að sjá til. En ég held að það sé leitun að annarri vöru þar sem verð hefur haldist óbreytt í tíu ár. Ég þori eiginlega að fullyrða að sú vara sé ekki til, sama hvort litið sé til matvöruverslana, veitingastaða eða annarri þjónustu.“

Magnús segir að Domino‘s hafi með tilboðinu gjörbreytt landslaginu í skyndibitageiranum á Íslandi. „Áður fyrr var ekki til neitt sem hét þriðjudagstilboð. Þetta var konsept sem var ekki til. Í dag er nánast hægt að fá þriðjudagstilboð hvar sem er. Það eru allir búnir að herma eftir okkur. Ég held að neytendur njóti bara góðs og þeir eru áfram vel settir, þó að tilboðið sé nú á 1.100 krónur í stað þúsund,“ segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×