Innlent

Segir starfs­menn hafa sinnt Foss­vogs­skóla­verk­efninu af fag­mennsku og heilindum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ólöf Örvarsdóttir hefur verið sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá árinu 2012.
Ólöf Örvarsdóttir hefur verið sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá árinu 2012. Vísir/ÞÞ

Viðgerðirnar sem standa yfir á Fossvogsskóla eru flókið og ófyrirsjáanlegt verkefni og starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar hafa unnið starf sitt af fagmennsku og heilindum.

Þetta segir Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, í yfirlýsingu sem hún sendi Vísi. Tilefnið er kröfugerð Foreldrafélags Fossvogsskóla, sem kynnt var borgarstjóra á þriðjudag og send á fjölmiðla í morgun.

„Í ljósi fréttatilkynningar frá Foreldrafélagi Fossvogsskóla finnst mér mikilvægt að koma því á framfæri að það starfsfólk á umhverfis-og skipulagssviði, sem og ráðgjafar, sem komið hafa að viðgerðum á Fossvogsskóla, sem er bæði flókið og ófyrirsjáanlegt verkefni, hafa unnið sitt starf af fagmennsku og heilindum og munu gera það áfram.

Á umhverfis-og skipulagssviði starfa tæplega 500 manns sem leggja sig fram við störf sín í þágu borgarbúa alla daga,“ segir Ólöf.

Sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg segir starfsmenn borgarinnar hafa sinnt störfum sínum af fagmennsku og heilindum.Vísir/Vilhelm

Er hún þar að svara gagnrýni sem birtist í fjórðu grein kröfugerðar foreldrafélagsins, sem hljóðar svo:

„Þeim starfsmönnum umhverfis- og skipulagssviðs og ráðgjafa frá Verkís, sem hafa ítrekað brugðist börnunum okkar undanfarin þrjú ár, verði skipt út. Fullkomið vantraust ríkir af hálfu foreldra til þessara manna sem hafa of lengi staðið fyrir vanefndum og villuljósum.“

Foreldrar hafa kallað eftir því að fá fulltrúa í skipulags- og framkvæmdahópum verkefnisins og að Reykjavíkurborg veiti meiri aðstoð inn í skólastarfið, bæði með því að fjölga starfsmönnum og auka fjárframlög til skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×