Erlent

Vonast til þess að lykil­upp­lýsingar um upp­runa Co­vid-19 leynist í gömlum blóð­sýnum í Wu­han

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Wuhan í Kína.
Frá Wuhan í Kína. Getty

Yfirvöld í Kína hyggjast skima tugi þúsunda blóðsýna sem safnað var saman í Wuhan-borg allt frá lokum ársins 2019, í von um að upplýsingar sem þar leynist geti varpað ljósi á hvernig Covid-19 barst fyrst í menn. Vísindamenn vilja að erlendir sérfræðingar fái að fylgjast með ferlinu.

Allt að tvö hundruð þúsund blóðsýni eru geymd í blóðbanka í Wuhan-borg, þar sem fyrst varð vart við veiruna sem breiddist svo út um allan heim þaðan.

Rannsakendur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bentu á í febrúar að þarna gætu leynst lykilupplýsingar um hvar og hvenær Covid-19 barst fyrst í menn. Í frétt CNN segir að blóðsýnin nái aftur til ársins 2019.

Kínversk yfirvöld segja að blóðsýnin séu geymd í tvö ár sé þeirra þörf sem sönnunargögn í lögsóknum sem tengjast blóðgjöfum. Þessi tveggja ára biðtími er senn á enda fyrir blóðsýni sem tekin voru í október og nóvember árið 2019, en á þeim tíma telja sérfræðingar líklegt að veiran hafi fyrst borist í menn.

Vonast er til þess að blóðsýnin geti varpað ljósi á það hvenær Covid-19 barst fyrst í menn.Getty/David Silverman

Embættismenn í Kína segja í frétt CNN að þegar þessi tveggja ára biðtími sé á enda muni rannsókn á blóðsýnunum hefjast.

Mauren Miller, faraldsfræðingur hjá Columbia-háskólanum í Bandaríkjunum segir að það sé algjörlega víst að í blóðsýnunum muni leynast mikilvægar vísbendingar um hvar og hvernig Covid-19 barst fyrst í menn. Kallar hún eftir því að yfirvöld í Kína leyfi erlendum sérfræðingum að fylgjast með ferlinu.

„Það mun engin trúa útgefnum niðurstöðum frá Kína nema hæfir sérfræðingar fái að minnsta kosti að fylgjast með ferlinu,“ segir hún.

Í frétt CNN segir að ef blóðsýnin hafi verið geymd á réttan hátt sé mögulegt að finna þar fyrstu merki um að móttefni hafi verið myndað gegn Covid-19. Finnist vísbendingar um það sé hægt að finna út hvenær Covid-19 barst fyrst í menn út frá dagsetningu blóðsýnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×