Khalil er háttsettur meðlimur Shi‘ite Amal hreyfingarinnar og mikill stuðningsmaður vígahópsins Hezbollah. Leiðtogi Hezbollah, Sayyed Hassan Nasrallah, gagnrýndi dómarann Tarek Bitar harðlega í gær og kallaði eftir því að honum verði skipt út. Dómarinn, að mati Nasrallah, sé hlutdrægur og pólitískar skoðanir ráði störfum hans.
Samkvæmt frétt Reuters eru bara nokkrar vikur liðnar síðan Wafik Safa, háttsettur maður innan Hezbollah, hótaði Bitar að hópurinn myndi tryggja að honum yrði skipt út.
Rannsókninni á sprengingunni, sem varð þann 4. ágúst 2020, hefur lítið miðað áfram. Fyrrverandi ráðherrar og háttsettir stjórnmálamenn hafa ítrekað neitað að mæta til skýrslutöku vegna málsins og nokkrir kvartað yfir Bitar vegna málsins.
Khalil er ekki eini fyrrverandi ráðherrann sem handtökuskipun hefur verið gefin út fyrir. Gefin var út handtökuskipun á hendur Youssefs Finianos, fyrrverandi atvinnumálaráðherra, í september eftir að hann mætti ekki til skýrslutöku. Finianos hefur enn ekki verið handtekinn, þrátt fyrir handtökuskipunina.
Bitar hefur ítrekað óskað eftir því að fyrrverandi ríkisstjórn landsins mæti til skýrslutöku en fá svör fengið. Fyrrverandi ráðherrarnir hafa margir hverjir kvartað undan honum og sagt hann óhæfan til að fara fyrir rannsókninni.