Navalní segist í færslu á samfélagsmiðlinum Instagram hafa verið kallaður fyrir nefnd í fangelsinu þar sem hann er vistaður. Hún hafi síðan samhljóða samþykkt að gefa honum stöðu hryðjuverkamanns, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Rússnesk yfirvöld fangelsuðu Navalní fyrir að hafa brotið gegn skilorði fangelsisdóms sem hann hlaut vegna fjárglæpa. Mannréttindadómstóll Evrópu taldi þann dóm gerræðislegan. Skilorðið átti Navalní að hafa rofið með því að liggja í dái á sjúkrahúsi í Þýskalandi eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitri í Rússlandi í ágúst í fyrra. Navalní sakar rússnesk stjórnvöld um að hafa staðið að tilræðinu en því hafa þau neitað.
Hlaut Navalní tveggja og hálfs árs fangelsisdóm en rússnesk stjórnvöld hafa undanfarið leitast við að tryggja að hann verði látinn dúsa enn lengur í steininum. Þau létu skilgreina samtök sem hann stofnaði sem öfgasamtök í sumar en þannig tókst þeim að koma í veg fyrir að bandamenn Navalní gætu boðið sig fram í þingkosningum í haust.
Navalní er nú ákærður fyrir að stofna öfgasamtök sem hafi verið ætlað að koma óorði á Rússland, stefnu stjórnvalda, grafa undan stöðugleika og hvetja til mótmæla almennings. Markmið þeirra hafi verið ofbeldisfull valdataka.
Sjóður Navalní gegn spillingu hefur í gegnum tíðina birt rannsóknir sem hafa varpað ljósi á spillingu Vladímírs Pútín forseta og bandamanna hans. Svæðisskrifstofur samtakanna víða um Rússland hafa svo hjálpað kjósendum að finna frambjóðendur í kosningum sem geta ógnað fulltrúum Sameinaðs Rússlands, flokks forsetans.
Stjórnvöld í Kreml hafa gengið sérstaklega hart fram gegn stjórnarandstöðunni, andófsfólki og óháðum blaðamönnum á þessu ári. Fjöldi þeirra hefur verið fangelsaður og sætt húsleit. Þá hafa nokkrir sjálfstæðir fjölmiðlar verið lýstir útsendarar erlendra ríkja og sæta sérstöku eftirliti.
Dmitrí Múratov, fyrrverandi ritstjóri dagblaðsins Novaya Gazeta, hlaut friðarverðlaun Nóbels í síðustu viku. Hann tileinkaði sex blaðamönnum sem unnu fyrir hann en voru myrtir verðlaunin. Sjálfur hefði hann veitt Navalní verðlaunin hefði hann eitthvað um það að segja.