Khan var lagður inn á Khan sjúkrahúsið þann 26. ágúst síðastliðinn eftir að hann greindist smitaður af kórónuveirunni en var síðar færður á hersjúkrahúsið í Rawalpindi, samkvæmt frétt ríkisútvarps Pakistan.
„Hann var elskaður og dáður af þjóðinni vegna hans mikilvæga framlags til að gera okkur að kjarnorkuveldi,“ skrifaði Imran Khan, forsætisráðherra Pakistan á Twitter í dag. „Hann var þjóðargersemi.“
Deeply saddened by the passing of Dr A Q Khan. He was loved by our nation bec of his critical contribution in making us a nuclear weapon state. This has provided us security against an aggressive much larger nuclear neighbour. For the people of Pakistan he was a national icon.
— Imran Khan (@ImranKhanPTI) October 10, 2021
Khan verður helst minnst fyrir kjarnorkuviðskiptaskandalinn sem kom upp árið 2004 þegar í ljós kom að hann seldi Norður-Kóreu, Íran og Líbíu kjarnorkutækni. Khan viðurkenndi sekt sína í viðtali við ríkisútvarp Pakistan en var síðar náðaður af Pervez Musharraf, forseta landsins. Þrátt fyrir það var Khan í stofufangelsi á heimili sínu, sem helst má líkja við höll, í Islamabad.
Þegar hann viðurkenndi sekt sína sagðist Khan hafa starfað einn við sölu kjarnorkutækninnar, pakistanska ríkið hafi ekkert vitað af viðskiptunum. Síðar sagðist Khan þó hafa verið gerður að blóraböggli.
Khan forsætisráðherra, sem er ekki skyldur AQ Khan á nokkurn hátt, tilkynnti jafnframt á Twitter að vísindamaðurinn verði lagður til hinstu hvílu í Faisal moskunni í Islamabad, höfuðborg Pakistan, að hans ósk.