Fótbolti

Sjáðu mörkin: Real marði sigur í Úkraínu | Öruggt hjá Juventus

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Caruso skoraði glæsilegt mark í kvöld.
Caruso skoraði glæsilegt mark í kvöld. @DAZNFootball

Tveimur af leikjum dagsins í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta er nú lokið. Real Madríd marði sigur gegn WFC Zhytlobud-1 Kharkiv frá Úkraínu en bæði lið eru með Breiðablik í riðli. Þá vann Juventus öruggan sigur á Servette í Sviss.

Breiðablik mætir París Saint-Germain í B-riðli Meistaradeildarinnar nú klukkan 18.45. Einum leik í riðlinum er þó lokið en Real Madríd sóttu þrjú stig til Úkraínu þar sem liðið mætti WFC Zhytlobud-1 Kharkiv.

Heimastúlkur sýndu að þær eru sýnd veiði en ekki gefin og gáfu Real hörkuleik í dag. Eina mark leiksins skoraði Lorena Navarro Dominguez rúmlega háltíma og þar við sat. Real eflaust sátt með að byrja á sigri á erfiðum útivelli.

Í Sviss var Juventus í heimsókn. Sigur gestanna var töluvert öruggari en í Úkraínu þar sem Juventus vann nokkuð þægilegan 3-0 sigur. Sigurinn hefði getað verið stærri en Andrea Stašková brenndi af vítaspyrnu á 27. mínútu er staðan var enn 0-0.

Arianna Caruso kom gestunum hins vegar yfir rúmum tíu mínútum síðar þegar hún klippti boltann glæsilega í netið eftir sendingu Lisa Boattin. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og staðan 1-0 gestunum í vil er flautað var til hálfleiks.

Hin sænska Lina Hurtig skoraði annað mark Juventus þegar 25 mínútur lifðu leiks eftir glæsilegan undirbúning Stašková sem bætti þar að vissu leyti upp fyrir að hafa klúðrað vítaspyrnu fyrr í leiknum.

Valentina Cernoia gerði svo út um leikinn með þrumuskoti á á 71. mínútu og lokatölur 3-0 Juventus í vil. 

Voru þetta fyrstu leikir liðanna í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á leiktíðinni og þar af leiðandi fyrstu sigrar Real og Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×