Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna, Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins komu saman til fundar í Ráðherrabústaðnum í morgun til að ræða grundvöll að nýjum stjórnarsáttmála. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar eru þau að fara yfir helstu áherslur flokkanna í kosnningabaráttunni og leggja línurnar í öllum helstu málaflokkum og meta hvar gæti steitt á steini á milli flokkanna.
Það mun að öllum líkindum taka tvær til þrjár vikur að koma saman stjórnarsáttmála jafnvel þótt allt gangi upp. En kærumál vegna meðferðar kjörgagna og endurtalningar í Norðvesturkjördæmi í kosningunum hinn 25. september eru ekki til að einfalda málin.
Samkvæmt lögum er kærufrestur vegna kosninga fjórar vikur frá því að landskjörstjórn hefur birt auglýsingu í Stjórnartíðindum um niðurstöður kosninganna og gefið út kjörbréf til þingmanna. Kærufresturinn er hins vegar styttri hafi þing komið saman fyrir lok kærufrestsins.
Það er aftur á móti ekki líklegt að stjórnarflokkarnir vilji ljúka stjórnarmyndunarviðræðum áður en afstaða kjörbréfanefndar og síðan Allþingis í atkvæðagreiðslu til kæranna liggur fyrir þar sem uppkosning gæti breytt samsetningu þingflokka verði það niðurstaðan að boða til þeirra.
Samkvæmt lögum á líka að leggja fjárlagafrumvarp fram á fyrsta fundi Alþingis. Sá möguleiki hefur þó verið nefndur að boða megi til fyrsta þinfundar til að taka fyrir kjörbréfamálin og fresta síðan fundi eftir afgreiðslu þeirra. Þannig þyrfti ekki að ræða fjárlagafrumvarp á sama tíma og kjörgengi þingmanna væri afgreitt.
Undirbúningskjörnefnd sem hóf störf á mánudag fundar aftur á morgun. Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar sagði í fréttum okkar í gær að til greina kæmi að fundir nefndarinnar fari fram fyrir opnum tjöldum, nema þegar verið væri að ræða trúnaðarmál.