Ísland er á meðal þeirra 16 þátttökuþjóða sem keppa á EM í Englandi í júlí á næsta ári. Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, tilkynnti fyrir skömmu að 16 milljónum evra yrði deilt á milli þjóðanna, eftir árangri þeirra á mótinu.
Þetta er tvöföldun á verðlaunafénu sem útdeilt var á EM 2017. Þar fengust til að mynda 300.000 evrur fyrir að spila í riðlakeppninni, eins og Ísland gerði.
Til samanburðar fékk hvert lið sem lék á EM karla í sumar að lágmarki 9,25 milljónir evra í sinn hlut. Heildarverðlaunafé á mótinu var 371 milljón evra, sem er 23 sinnum meira en á EM kvenna næsta sumar.
„Þetta er ekki nógu mikill peningur. Þetta er ekki nálægt því að vera það fjármagn sem til þarf,“ sagði Emma Hayes, knattspyrnustjóri Chelsea, um verðlaunaféð á EM kvenna. Hegerberg tók svo í sama streng í dag:
„Emma Hayes hefur hárrétt fyrir sér. Ég er leikmaður og mitt starf felst bara í því að standa mig. En það er mikilvægt varðandi þetta að við skiljum að við erum ekki í þeirri stöðu að við eigum að vera þakklátar fyrir allt sem við fáum,“ sagði Hegerberg.
„Ég veit að ef að maður stendur sig ekki þá uppsker maður ekki, en það þýðir ekki að maður eigi að vera þakklátur. Sumt er bara algjört lágmark,“ sagði Hegerberg.
Snýr aftur eftir 20 mánaða fjarveru
Hin 26 ára gamla Hegerberg hefur fimm sinnum orðið Evrópumeistari með Lyon. Þessi magnaða markadrottning hefur hins vegar verið frá keppni í mjög langan tíma eða um 20 mánuði, en gæti snúið aftur í leiknum gegn Häcken í Meistaradeild Evrópu á morgun.
„Ég skal vera hreinskilin. Þetta er búið að vera erfitt og hefur tekið mjög á andlega. En ég horfi á þetta jákvæðum augum. Ég hef þroskast mjög mikið, bæði sem kona og fótboltamaður, og þetta gefur mér styrk fyrir komandi ár því þetta mótar mig,“ sagði Hegerberg.