Þetta er á meðal þess sem lesa má úr skýrslum yfirkjörstjórna í kjördæmunum sex sem skilað var inn til landskjörstjórnar í vikunni. Fréttastofa fékk skýrslurnar afhentar í gær og má í þeim meðal annars finna upplýsingar um hvernig kjörgögn voru geymd að lokinni talningu í kjördæmunum sex. Nálgast má skýrslur og fundargerðir yfirkjörstjórnanna sex neðst í fréttinni.
Norðvesturkjördæmi eina kjördæmið þar sem kjörgögn voru ekki innsigluð
Eins og hefur verið reifað í fréttum af málinu síðustu daga stendur skýrt í lögum að kjörgögnin verði að innsigla eftir talningu, en svo var ekki gert í Norðvesturkjördæmi.
Í fundargerð yfirkjörstjórnar kjördæmisins kemur fram að að talningu lokinni, klukkan 07.35 á sunnudagsmorgun, hafi kjörgögn verið geymd í salnum þar sem talningin fór fram, hann læstur og öryggismyndavélar við inngang hans. Ekkert er minnst á að salurinn hafi verið innsiglaður, og raunar hefur Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, viðurkennt að innsigli hafi ekki verið límt fyrir hurðina að salnum.
Í greinargerð Inga til landskjörstjórnar er jafnframt tekið fram að lokinni endurtalningu á sunnudeginum, sem reyndist örlagarík fyrir tíu þingmannsefni, hafi atkvæðin verið flutt í innsiglaðan fangaklefa:
„Við innganginn í salinn eru öryggismyndavélar. Að lokinni endurtalningu voru kjörgögn þ.m.t. atkvæðaseðlar flutt í innsiglaðan fangaklefa á lögreglustöðinni í Borgarnesi“
Þá er tekið fram að upptökur úr öryggismyndavélum sem sýni innganginn í salinn þar sem talning fór fram séu komnar til lögreglu.
Þess ber að geta að landskjörstjórn hefur bókað að hún hafi ekki fengið staðfestingu þess efnis frá yfirkjörstjórninni í Norðvesturkjördæmi að varðveisla kjörgagna á talningastað hafi verið fullnægjandi, bókun landskjörstjórnar er byggð á upplýsingum úr fundargerð og greinargerð yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
En hvernig var þetta í hinum kjördæmunum?
Í greinargerð yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi má lesa að eftir að lokatölur voru tilkynntar úr kjördæminu var gengið frá kjörgögnunum í læstri geymslu með innsigli yfirkjörstjórnar. Kjörgögnin sjálf voru innsigluð og skipt var um læsingar á geymslunni til þess að eins einn lykill, sem var í vörslu yfirkjörstjórnar, væri að geymslunni. Þessi háttur hafi áður verið á, og sami háttur hafi verið á í þetta skiptið.
Öryggisvörður í Ráðhúsinu og húsvörður á Akureyri
Í fundargerð yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis má lesa að áður en að yfirkjörstórn þar yfirgaf talningarstað hafi salnum, sem geymdi kjörgögnin, verið læst og hann innsiglaður.
Yfirkjörstjórnir í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur skiluðu inn sameiginlegri greinargerð og þar kemur fram að þegar talningu var lokið hafi atkvæðaseðlar verið variveittir undir umsjón yfirkjörstjórnar. Fyrst í læstum talningarsal, síðan í lokuðu rými í Ráðhúsi Reykjavíkurborgar undir innsigli.
Þangað voru kjörgögnin flutt að morgni sunnudags. Öryggisvörður á vegum yfirkjörstjórnar var fyrir utan talningarsalinn fram að flutningi atkvæðanna.
Í greinargerð yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis segir að eftir að vinnu var lokið við talningu hafi kjörkössum verið læst og salnum þar sem þeir voru geymdir einnig verið læst.

Raufar kjörkassanna hafi verið innsiglaðar allan tímann með innsiglisborða. Brekkuskóli á Akureyri, þar sem talning fór fram, var svo vaktaður af húsverði og með öryggismyndavélum á meðan kjörstjórn gerði hlé á störfum sínum. Formaður yfirkjörstjórnar varðveitti lykla að kjörkössum og salnum þar sem kjörgögnin voru geymd.
Lesa má og skoða þau gögn sem fréttastofa fékk frá landskjörstjórn hér að neðan.