Í frétt Washington Post segir að átökin byrjuðu á skothríð og sprengjukasti fanga á milli í fangelsi Guayaquil í gærmorgun. Þar hafi gengi verið að berjast um yfirráð í hluta fangelsins. Fimm þeirra sem dóu höfðu verið afhöfðaðir.
Forsvarsmenn lögreglunnar segjast hafa náð tökum á fangelsinu á nýjan leik tæpum fimm klukkustundum eftir að óeirðirnar hófust.
Tveir mánuðir eru síðan forseti Ekvador lýsti yfir neyðarástandi í fangelsiskerfi landsins. Það gerði hann eftir tvennar mannskæðar bylgjur óeirða í fangelsum landsins. Í febrúar dóu til að mynda um áttatíu fangar í átökum í þremur fangelsum landsins. Það var eftir að leiðtogi eins glæpagengja landsins var myrtur af meðlimum annars gengis.
Minnst 145 fangar hafa verið myrtir í fangelsum Ekvador á þessu ári. Rúmlega hundrað voru myrtir í fyrra. Washington Post segir ástandi fangelsiskerfis Ekvador lengi hafa varið bagalegt. Of margir fangar séu í fangelsum landsins og of fáir fangaverðir, sem nái ekki að koma í veg fyrir glæpastarfsemi innan veggja fangelsa né smygl vopna þar inn.