Viðskipti erlent

Breski herinn í við­bragðs­stöðu þar sem bensín er víða upp­urið

Atli Ísleifsson skrifar
Bensín er uppurið á mörgum stöðvum eftir að fjölmargir hafa hamstrað síðustu daga.
Bensín er uppurið á mörgum stöðvum eftir að fjölmargir hafa hamstrað síðustu daga. EPA

Breski herinn hefur verið settur í viðbragðsstöðu og kann að koma til þess að hann muni aðstoða við að koma eldsneyti til bensínstöðva í landinu. Bensín er uppurið á mörgum bensínstöðvum eftir að fjölmargir hafa hamstrað eldsneyti síðustu daga.

Breska ríkisútvarpið segir frá því að allt að 150 olíuflutningabílar breska hersins kunni að verða notaðir til að koma bensíni á bensínstöðvarnar. Miklar raðir hafa myndast á bensínstöðvum síðustu fjóra daga.

Nóg er til af bensíni og olíu á birgðastöðvum í landinu en skortur á bílstjórum vörubíla og olíuflutningabíla til að koma vörunni til smásala hefur leitt til þessa ófremdarástands.

Áætlað er að það vanti um 100 þúsund vörubílstjóra til starfa í Bretlandi, sem hefur leitt til mikilla vandræða á síðustu mánuðum þegar kemur að því að koma vörum í verslanir.

Kwasi Kwarteng, viðskiptaráðherra Bretlands, segir það varúðarráðstöfun og skynsamt skref að setja herinn í viðbragðsstöðu. Þannig sé hann reiðubúinn að bregðast við ef formleg ósk myndi berast um aðstoð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×