Pablo Punyed varð líka þarna Íslandsmeistari með sínu þriðja félagi og þetta sumar er enn eitt dæmið um að Palbo mætir á svæðið og fljótlega enda löng bið hjá hans nýja félagi eftir titli.
Síðustu fjögur félög Pablo á Íslandi hafa öll unnið stóran titil eftir að hann fór að spila með félaginu.
Pablo spilaði fyrst á Íslandi með Fjölni árið 2012 en fyrsta tímabilið hans í efstu deild var með Fylki 2013.
Ævintýrin fóru hins vegar að gerast þegar hann samdi við Stjörnuna fyrir 2014 tímabilið. Frá árinu og með árinu hefur Pablo Punyed unnið stóran titl, Íslandsmeistaratitil eða bikarmeistaratitil, með fjórum mismunandi félögum.
Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins á hans fyrsta tímabili, ÍBV vann sinn fyrsta bikar í nítján ár á hans öðru ári í Eyjum, KR varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sex ár á hans öðru ári og Víkingar urðu í ár Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í þrjá áratugi á hans fyrstu leiktíð í Víkinni.
Það fylgir líka sögunni að Stjarnan hefur ekki orðið Íslandsmeistari eftir að hann fór, ÍBV hefur ekki unnið titil síðan að hann fór og KR-ingar unnu ekki titil á sínu fyrsta tímabili án Pablo.
Sigurvegarinn Pablo Punyed:
- Fer í Stjörnuna 2014
- Árið 2014 verður Stjarnan Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögunni
- Fer í ÍBV 2016
- Árið 2017 verður ÍBV bikarmeistari og vinnur sinn fyrsta titil í 19 ár.
- Fer í KR 2018
- Árið 2019 verður KR Íslandsmeistari í fyrsta sinn í 6 ár
- Fer í Víking 2021
- Árið 2021 verður Víkingur Íslandsmeistari í fyrsta sinn í 30 ár