Erlent

Búið að birta Andrési stefnu með lögmætum hætti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stækkuð mynd af Andrési og Giuffre. Á myndinni sést einnig Ghislaine Maxwell, sem hefur verið sökuð um að sjá Epstein og vinum hans fyrir ungum stúlkum. Getgátur eru uppi um að Epstein sjálfur hafi tekið myndina.
Stækkuð mynd af Andrési og Giuffre. Á myndinni sést einnig Ghislaine Maxwell, sem hefur verið sökuð um að sjá Epstein og vinum hans fyrir ungum stúlkum. Getgátur eru uppi um að Epstein sjálfur hafi tekið myndina.

Lögmenn Andrésar Bretaprins í Bandaríkjunum hafa gengist við því að honum hafi nú verið birt stefna með réttum hætti, í máli sem Virginia Giuffre hefur höfðað gegn honum. Giuffre sakar hertogann af Jórvík um kynferðisbrot og aðild að mansali.

Andrés var vinur fjárfestisins Jeffrey Epstein, sem svipti sig lífi í fangelsi í New York.

Lögmenn prinsins og Giuffre deildu um það frammi fyrir dómara á dögunum hvort honum hefði verið birt stefnan með lögmætum hætti en lögmenn Giuffre sögðust hafa gert allt sem í þeirra valdi stóð og meðal annars afhent lögreglu við heimili Andrésar pappírana.

Dómari í New York úrskurðaði í síðust viku að lögmenn Giuffre mættu birta prinsinum stefnu í Bandaríkjunum, það er að segja afhenda hana bandarískum lögmönnum Andrésar.

Það að þeir hafa viðurkennt að hafa móttekið stefnuna þýðir að nú þarf prinsinn að grípa til varna, ellegar eiga á hættu að tapa málinu sjálfkrafa.

Giuffre segir Andrés hafa brotið á sér að minnsta kosti þrisvar sinnum, þegar hún var aðeins 17 ára. Hann hefði bæði vitað hvað hún var gömul og að hún væri fórnarlamb mansals. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×