Fótbolti

Wenger tilbúinn að veðja á að færri landsleikjahlé og fleiri stórmót bæti fótboltann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arsene Wenger vill að heimsmeistaramótið í knattspyrnu verði haldið á tveggja ára fresti.
Arsene Wenger vill að heimsmeistaramótið í knattspyrnu verði haldið á tveggja ára fresti. Valeriano Di Domenico - Pool/Getty Images

Arsene Wenger, fyrrum stjóri Arsenal, segist vera tilbúinn að veðja á hugmyndir sínar varðandi það að gjörbreyta dagatalinu í kringum landsleikjahlé, og að það muni bæta fótboltann.

Wenger hefur stungið upp á því að fækka landsleikjahléum og að heimsmeistaramótið í knattspyrnu verði haldið á tveggja ára fresti, í stað fjögurra.

„Áhættan er fólgin í því að gera fótboltann betri, og ég er tilbúinn að veðja á það,“ sagði Wenger í samtali við BBC.

Hugmyndir franska fyrrum knattspyrnustjórans fela í sér að í staðin fyrir að landsliðin hafi 50 daga á ári til að hittast, verði dögunum fækkað í 28, og leikjum í undankeppnum yrði fækkað úr tíu í sjö.

Hann hefur einnig stungið upp á því að undankeppnirnar fyrir bæði EM og HM fari í heild sinni fram í október þar sem að allur mánuðurinn yrði undirlagður fyrir viðkomnandi undankeppni.

„Fleiri leikir í útsláttarkeppni, færri leikir í undankeppni. Það er það sem stuðningsfólkið vill,“ var haft eftir Wenger í þýska íþróttamiðlinum Kicker á dögunum.

Samkvæmt nýlegri könnun á vegum Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, styður meirihluti fólks að heimsmeistaramótið verði haldið oftar en á fjögurra ára fresti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×