Gabrielle „Gabby“ Petito, sem var 22 ára, hvarf þegar hún var á ferðalagi í breyttum sendiferðabíl með Brian Laundrie, 23 ára gömlum unnusta sínum, í ágúst. Laundrie sneri einn heim úr ferðinni í byrjun september og neitaði að segja fjölskyldu Petito og lögreglu hvað varð um hana. Hans hefur nú verið saknað frá því á þriðjudag í síðustu viku.
Lögreglumenn fundu lík sem passaði við lýsingar á Petito við mörk Grand Teton-þjóðgarðsins í Wyoming á sunnudag. Yfirvöld biðu með að staðfesta það endanlega þar til niðurstaða réttarmeinarannsóknar lægi fyrir.
Nú hefur dánardómstjóri í Teton-sýslu staðfest að líkið sé af Petito og að hún hafi verið drepin. Hann upplýsti þó ekki hver dánarorsök Petito var, að sögn AP-fréttastofunnar.
Hvarf Petito hefur vakið athygli á landsvísu í Bandaríkjunum, sérstaklega á samfélagsmiðlum. Parið var á ferðalagi í sendiferðabílnum um landið endilangt og birti fjölda mynda og myndbanda á samfélagsmiðlum.
Síðustu skilaboðin heim vöktu áhyggjur fjölskyldunnar
Leit að Laundrie á fenjasvæði á Suður-Flórída hélt áfram án árangurs í gær. Það síðasta sem foreldrar hans vissu af syni sínum var að hann ætlaði að ganga einn um Charlton-náttúruverndarsvæðið. Washington Post segir að til standi að halda leitinni áfram í dag.
Laundrie var ekki með réttarstöðu grunaðs í rannsókn lögreglu áður en hann hvarf sjálfur en lögregla vildi ná tali af honum. Lögmaður hans réð honum frá því að veita upplýsingar um afdrif Petito.
Lögregla gerði húsleit á heimili foreldra Laundrie í bænum North Port á Flórída á mánudag. Í leitarheimild lögreglu kom fram að síðustu smáskilaboðin sem Petito sendi móður sinni 27. ágúst hafi valdið fjölskyldu hennar áhyggjum af velferð hennar. Eftir þann dag var slökkt á símanum og Petito hætti að birta færslur á samfélagsmiðlum um ferðalagið.
Eftir að tilkynnt var um hvarf Petito greindi lögregla í Utah frá því að hún hefði haft afskipti af parinu eftir að tilkynnt var um að Laundrie hefði lagt hendur á hana í ágúst. Myndbönd frá lögregluþjónum sem ræddu við þau sýndu Petito grátandi óstjórnlega. Parinu var skipað að gista hvort í sínu lagi þá um nóttina.