Maðurinn hennar var hnepptur í gæsluvarðhald og síðar farbann vegna rannsóknar málsins en var ekki meðal þeirra ákærðu. Hún, líkt og maðurinn hennar Anton Kristinn, voru kölluð fyrir sem vitni í málinu sem varðar morðið á Armando Beqirai sem Angjelin Sterkaj hefur gengist við.
Bæði lýstu Anton og Ellen Angjelin sem nánum fjölskylduvini og sagði Ellen hann alltaf hafa verið til staðar og að börnin þeirra hafi leikið sér saman.
Anton og Ellen voru í snjósleðaferð á Sauðárkróki helgina sem Armando var myrtur. Þar hafði Angjelin verið en hann hafði farið til Reykjavíkur laugardaginn örlagaríka en komið til baka daginn eftir.
Ekkert grín að saka fólk um svona
Ellen kvað langt um liðið og málið hefði reynst henni afar erfitt. Því ætti hún ekki gott með að muna eftir atburðum þegar hún var spurð út í atvik.
„Þetta er óljóst fyrir mér í dag og búið að sundra fjölskyldunni minni,“ sagði Ellen.
Spurð nánar út í það sagði hún Anton, eiginmann sinn, hafa verið hnepptan í gæsluvarðhald og hún hafi ekki treyst sér til að hafa börnin sín lengur.
„Það er ekkert grín að ásaka fólk um svona,“ sagði Ellen og vísaði til ásakana um að Anton ætti aðild að því að Armando hefði verið banað.
Fór í felur
Ellen sagðist fyrir dómi hafa þurft að fara í felur þegar Anton var í gæsluvarðhaldi.
„Lögreglan óskaði, í samstarfi við lögfræðinginn minn, að ég myndi halda kyrru fyrir uppi í sveit,“ sagði Ellen.
Spurð hvort hún kannaðist við að fjölskyldan hefði fengið hótanir vegna Lekamálsins svokallaða, þar sem upplýsingar sem lekið var á Internetið í upphafi árs gáfu til kynna að Anton væri upplýsingagjafi hjá lögreglu, sagðist hún ekki hafa heyrt af slíku. Hún sagðist þó vita að einhverjir hefðu ekki verið sáttir eftir að það mál kom upp.
„Ég var búin að heyra út undan mér að einhverjir menn í undirheimunum væru ekki sáttir.“