Pottarnir við sundlaugina í Stykkishólmi virðast ósköp hefðbundnir en það sem margir vita ekki er að í þá rennur einstakt, vottað hitaveituvatn úr borholu. Vatnið er ríkt af steinefnum, er basískt og inniheldur uppleyst efni á borð við natríumklóríð og kalsíumsölt. Vatnið hefur reynst fólki með húðsjúkdóma vel og það sem er ekki síðra - það á líka að vera yngjandi.
„Þessi samsetning er talin alveg extra góð og þeir psoriasis sjúklingar sem koma hingað segja að þetta sé mikið betra en vatnið í Bláa lóninu, ég veit ekki hvort það má segja það,” segir Arnar Hreiðarsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja í Stykkishólmi.
Hann segir fólk finna raunverulegan mun á húðinni eftir vatnið.
„Það eru margir sem koma, leigja sér bústað hérna uppi í sveit og eru hér í kannski þrjá, fjóra eða fimm daga og fara miklu betri heim. Það er miklu ódýrara að koma í Stykkishólm í nokkra daga en að fara í sólina og liggja erlendis,” segir Arnar og tekur fram að það kosti ekki nema 1.050 krónur að fara í laugina.
Arnar bætir við að drykkjarvatnið sé einnig allra meina bót, en sundlaugargestir geta drukkið það beint af krana. „Þetta er aðeins salt og steinefnin í þessu eru betri en orkudrykkir sem verið er að blanda og búa til og setja í alls konar steinefni. Þetta er allt hér.“
Róbert Grétar Gunnarsson, yfirstýrimaður á Baldri, er fastagestur í lauginni en tekur undir orð Arnars að um algjört undravatn sé að ræða. „Þetta er bara alveg dásamlegt. Hressir, bætir og kætir á allan hátt.“