Fréttir

Starfsmenn Marels „ganga“ í kringum jörðina

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Björg Kjartansdóttir, sviðsstjóri hjá Rauða krossinum, sem er mjög stolt og ánægð með verkefni Marels
Björg Kjartansdóttir, sviðsstjóri hjá Rauða krossinum, sem er mjög stolt og ánægð með verkefni Marels Magnús Hlynur Hreiðarsson

Tæplega sjö þúsund starfsmenn Marels í þrjátíu löndum eru nú að „ganga“, sem svarar hringnum í kringum jörðina í þeim tilgangi að safna áheitum fyrir alþjóðaverkefni Rauða krossins. Sviðsstjóri hjá Rauða krossinum segir verkefnið stórkostlegt.

Verkefnið hjá Marel hófst á mánudaginn og stendur til mánudagsins 20. september. Á þeim tíma ætla 6.800 starfsmenn Marels í þessum 30 löndum að stunda allskonar hreyfingu og safna í leiðinni áheitum. Öll hreyfing starfsfólks milli staða telst saman í eitt sameiginlegt ferðalag í kringum hnöttinn og fyrir hvern hring sem starfsmenn ganga gefur Marel 50.000 evrur, eða rúmlega 7.5 milljónir íslenskra króna til verkefna Rauða krossins.

Björg Kjartansdóttir, sviðsstjóri hjá Rauða krossinum segir verkefnið frábært en það kallast „Move the Globe.“

„Þau safna kílómetrum, þau geta hlaupið og þau geta meira að segja kafað og safnað kílómetrum í gegnum Strava og þannig er haldið utan um það, þau safna áheitum með þessu og allir geta verið með. Þetta er mjög flott framtak hjá Marel að gera þetta með þessum hætti, virkja starfsmennina til að gera eitthvað skemmtilegt,“ segir Björg.

Allur ágóði af þeim áheitum, sem starfsfólk Marels safnar rennur beint til Rauða krossins vegna verkefnis í norður Brasilíu.Aðsend

En í hvað fara peningarnir, sem safnast?

„Þeir fara í verkefni í norður Brasilíu, sem Alþjóðaráð Rauða krossins skipuleggur en það snýst um það að vinna vatnsbólið fyrir flóttafólk frá Venezuela en þau eru að flýja átök í heimalandinu og streyma yfir landamærin. Það er verið að byggja mannsæmandi aðstæður fyrir það fólk, sem þarf að flýja úr heimalandinu í norður Brasilíu og Marel ákveður að styðja það með þessum myndarlega hætti.“

Björg segir framtak Marels til svo mikillar fyrirmyndar að hún hvetur önnur fyrirtækið til að gera eitthvað svipað.

„Já, það væri svo ánægjulegt ef að fleiri fyrirtæki myndu feta í fótspor Marels og gera eitthvað með þessum hætti, hvetja starfsmenn sína til að hreyfa sig og safna áheitum“.

6.800 starfsmenn Marels í 30 löndum taka þátt í verkefninu.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×