Í sumar hafa verkamenn hangið í hlíðum Hafnarhyrnu fyrir ofan Siglufjörð svo verja megi byggðina þar fyrir neðan. Hlíðar fjallsins eru brattari en margir gera sér grein fyrir.
„Þetta er mjög bratt og maður gerir sér enga grein fyrir því héðan af láglendinu. Ég fékk að skoða þetta ekki fyrir löngu og þegar maður er þarna upp finnst manni þetta nánast vera lóðrétt,“ segir Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar.

Vinna við auknar snjóflóðavarnir mun standa yfir næstu árin.
„Það er verið að reisa girðingar, snjóflóðagirðingar, til þess að halda snjó í hlíðunum. Þetta er fjögurra ára verkefni sem vonandi lýkur eitthvað fyrr ef það gengur vel en þeir verða í kringum fjögur ár að vinna.“
Siglfirðingar fundu áþreifanlega fyrir snjóflóðahættunni í upphafi árs þegar rýma þurfti íbúðir í efri byggðum auk þess sem að snjóflóð reif með sér skíðaskálann á skíðasvæði Siglfirðinga.
Er þetta grundvöllur fyrir því að það sé hægt að hafa samfélag hérna, að menn geti treyst því að fjallið komi ekki húrrandi niður á veturna?
„Það er alveg klárt, bæði þarf að verja íbúabyggðina. Það þarf líka að verja atvinnulífið og svo þarf að sjálfsögðu að verja það sem við myndum kalla skipulagt útivistarsvæði íbúana því að allt þetta býr til samfélag.“