Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem framkvæmd var fyrir Samtök iðnaðarins (SI) meðal stjórnenda iðnfyrirtækja.
Tæplega 98% svarenda segja að stöðugt starfsumhverfi skipti miklu máli fyrir rekstur þeirra fyrirtækja. Ríflega 94% segja að stöðugt verðlag skipti miklu máli, 92% stöðugleiki á vinnumarkaði, 91% stöðugt gengi krónunnar og 91% stöðugt laga- og reglugerðarumhverfi.
Kalla eftir lækkun tryggingagjalds
Ríflega 98% stjórnenda iðnfyrirtækja segja að næsta ríkisstjórn eigi að leggja mikla áherslu á stöðugleika í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja.
Greint er frá niðurstöðunum á vef SI en könnunin var gerð á meðal stjórnenda aðildarfyrirtækja samtakanna dagana 19. til 31. ágúst. Byggja niðurstöðurnar á svörum 210 stjórnenda.
Í svörunum kemur fram mikil áhersla á aukna hagkvæmni í starfsumhverfi fyrirtækja en stjórnendurnir segja að lækkun skatta og gjalda skipti miklu fyrir rekstur þeirra. Þar segja 89% það skipta miklu máli að næsta ríkisstjórn lækki tryggingagjald og 70% fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði.
Vilja innleiða rafræna stjórnsýslu
Aðspurðir um hvað skipti máli að næsta ríkisstjórn leggi áherslu á segja tæplega 83% svarenda að miklu máli skipti að einfalda laga- og reglugerðarumhverfi fyrirtækja, ríflega 73% auka skilvirkni í framkvæmd eftirlits opinberra aðila og 69% að auka innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu.
Þessu til viðbótar segja 47% mikilvægt fyrir rekstur þeirra fyrirtækja að dregið sé úr samkeppnisrekstri opinberra aðila en ekki nema 17% segja að það skipti litlu máli.