Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Þar segir að skútunni hafi verið siglt frá Vestmannaeyjum þann 8. ágúst áleiðis til syðsta hluta Grænlands, að því er talið er.
„Einn maður er um borð í skútunni og hefur ekkert spurst til hans frá því hann hélt frá Vestmannaeyjum fyrir tæpum mánuði.
Takmarkaður fjarskiptabúnaður er um borð í skútunni, sem ber heitið Laurel, og enginn ferilvöktunarbúnaður. Því hefur það reynst íslenskum og dönskum yfirvöldum ómögulegt að ná sambandi við manninn um borð. Varðskipið Þór og þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa svipast um eftir skútunni síðustu daga en án árangurs. Þá hafa flugvélar og bátar danska heraflans jafnframt leitað skútunnar suður og austur af Grænlandi.
Sjófarendur eru beðnir um að láta Landhelgisgæsluna vita ef þeir verða varir við skútuna,“ segir í tilkynningunni.