Innlent

Lyftu líparíthaugum af veginum heim

Jakob Bjarnar skrifar
Félagar í FÍ gerðu sér lítið fyrir, hnykluðu vöðva og notuðu vogaraflið til að hrinda grjóthnullungunum af veginum heim.
Félagar í FÍ gerðu sér lítið fyrir, hnykluðu vöðva og notuðu vogaraflið til að hrinda grjóthnullungunum af veginum heim. skjáskot

Grjóhrun hindraði för hópa Ferðamannafélags Íslands en göngugarparnir gerðu sér lítið fyrir og ýttu grjóthnullungum frá og út í á.

„Í morgun vöknuðu tveir stórir hópar frá FÍ í Landmannalaugum við nokkuð vondan draum. Grjót hafði fallið á veginn við Jökulgilskvísl og Landmannalaugar því lokaðar frá umheiminum,“ segir á Facebook-síðu Ferðafélags Íslands.

Þetta setti strik í reikninginn en meðan skálaverðir, landverðir og aðrir sátu á rökstólum um hvernig skyldi bregðast við fóru vaskir félagar úr FÍ 52 fjöll á vettvang og opnuðu veginn.

Sjá má kappana glíma við grjótið á meðfylgjandi myndskeiði.

Í athugasemd við frásögnina á Facebook-síðu ferðafélagsins segir Ásta Þorleifsdóttir að í eina tíð hafi ekki verið vegur þarna, heldur bara kindagata um þessa hlíð og röltu menn þá í Laugar. „Kannski er það betra, skilaboð frá náttúrunni,“ segir Ásta í spaugi.

En Páll Ásgeir Ásgeirsson rithöfundur og fjallagarpur var í hópnum sem stóð í þessum tilfæringum á grjóti og hann snaraði fram vísu af því tilefni:

Í morgun við upplukum augum

efst í háfjallageim.

Og lyftum svo líparíthaugum

sem lokuðu veginum heim. (PÁÁ).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×