Innlent

Mál Kristjáns Gunnars fellt niður endanlega

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Kristján Gunnar Valdimarsson.
Kristján Gunnar Valdimarsson. Vísir

Ríkissaksóknari hefur endanlega fellt niður mál Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, lektors við Háskóla Íslands. Kristján var hnepptur í gæsluvarðhald í lok árs 2019 vegna gruns um frelssisviptingu og brot gegn þremur konum.

Mál Kristjáns Gunnars vakti mikla athygli en hann var fyrst handtekinn á Þorláksmessu árið 2019 vegna gruns um að hafa brotið gegn þrítugri konu og frelsissvipt hana. Hann var látinn laus degi síðar en handtekinn aftur á jólanótt eftir ásakanir um brot gegn fleiri konum. Réttargæslumaður brotaþola gagnrýndi verulega störf lögreglu og taldi að krefjast hefði átt gæsluvarðhalds strax eftir fyrri handtöku.

Lögregla lauk rannsókn sinni sumarið 2020 og fór málið á borð héraðssaksóknara, þar sem það var fellt niður tæpu ári síðar. Þolendur kærðu þá niðurstöðu til ríkissaksóknara sem nú hefur komist að sömu niðurstöðu og fellt málið niður, að sögn Helga Magnúsar Gunnarssonar varahéraðssaksóknara. 

Hann gat ekki upplýst um hvers vegna málið var fellt niður en fréttastofa hefur fengið upplýsingar um að ekki hafi verið nægar sannanir fyrir hendi og málið því ekki talið líklegt til sakfellingar. Málið hefur því endanlega verið fellt niður og verður niðurstöðunni því ekki hnekkt.

Kristján Gunnar starfaði sem lektor í skattarétti við Háskóla Íslands um árabil en var vikið frá störfum árið 2019, eftir kvartanir frá nemendum, meðal annars vegna lélegrar mætingar.


Tengdar fréttir

Reyndi að koma í veg fyrir mynda­töku fyrir utan dóm­salinn

Kristján Gunnar Valdimarsson, lögmaður og lektor við Háskóla Íslands sem grunaður er um kynferðisbrot gegn þremur konum og um að hafa frelsissvipt þær, var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×