Innlent

Síðasta þéttbýli Austurlands tengist brátt bundnu slitlagi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Viðar Hauksson er verkefnisstjóri Héraðsverks í Borgarfjarðarvegi. Dyrfjöll í baksýn.
Viðar Hauksson er verkefnisstjóri Héraðsverks í Borgarfjarðarvegi. Dyrfjöll í baksýn. Arnar Halldórsson

Endurbygging fimmtán kílómetra vegarkafla á Fljótsdalshéraði í átt til Borgarfjarðar eystra markar þáttaskil í samgöngumálum Austurlands. Þegar malbikun vegarins lýkur verða allir þéttbýlisstaðir fjórðungsins tengdir bundnu slitlagi.

Vegurinn liggur til norðurs frá Egilsstöðum um Úthérað. Þar sem slitlaginu sleppir norðan Eiða eru núna komnar vinnuvélar á vegum Héraðsverks, sem tók að sér verkið fyrir 666 milljónir króna eftir útboð Vegagerðarinnar.

„Við erum tiltölulega nýbyrjaðir. Erum bara að koma okkur af stað í verkefninu,“ segir Viðar Hauksson, verkefnisstjóri Héraðsverks, en sjá mátti bílaumferðina þræða framhjá vinnuvélunum í fréttum Stöðvar 2.

„Það er búið að vera mikil umferð. En hún fer minnkandi núna. Þannig að núna getum við farið á fullt.“

Vegarkaflinn er 14,7 kílómetra langur.Grafík/Ragnar Visage

Vegfarendur á leið til Borgarfjarðar eystra munu eflaust njóta útsýnis til Dyrfjalla betur þegar rennislétt malbikið leysir af malarveginn.

„Þetta er langþráð. Þetta er nú búið að vera leiðinlegt lengi. Þannig að þetta verður mikil bylting þegar þetta verður komið,“ segir Viðar.

Áður var Héraðsverk búið að malbika yfir Vatnsskarð og um Njarðvíkurskriður á leiðinni til Borgarfjarðar. Núna bætist við síðasti kaflinn, 14,7 kílómetra langur, um Hjaltastaðaþinghá.

-Þetta er líka fyrir sveitirnar hérna?

„Já, já. Sveitirnar og ferðamanninn. Það er mikil ferðamannatraffík hingað niður eftir.“

Vegarkaflinn liggur um Hjaltastaðaþinghá milli bæjarins Laufáss og skólasetursins Eiða.Arnar Halldórsson

Viðar segir að milli fimmtán og tuttugu starfsmenn verði í verkinu, flestir heimamenn af Héraði.

„Við verðum með töluvert mikinn mannskap. Þetta er tiltölulega knappur tími á þessu verkefni. Boðið tiltölulega seint út. Það þarf að halda vel áfram til að ná þessu.“

Nokkur holt verða sprengd niður en annars verður lítil breyting á veglínu.

„Hann fylgir nánast alveg gamla veginum. Þannig að þetta er svona uppbygging á honum, breikkun. Hæðarlínan löguð.“

Við Kjarvalshvamm verður veglínu haldið en búið til betra bílastæði.Arnar Halldórsson

Veglínu verður einnig haldið um Kjarvalshvamm þar sem ferðmenn hafa mátt skoða sumarhús og bátaskýli listmálarans Jóhannesar Kjarvals í þjóðvegaryki.

„Það hverfur allt ryk vonandi þegar þetta verður búið. Og á að búa til þarna gott bílastæði og annað. Aðgengi verður betra,“ segir verkefnisstjórinn.

Verklok eru áætluð eftir rúmt ár, 30. september á næsta ári. Þá verður bara eftir að tengja þrjá þéttbýlisstaði á Íslandi við þjóðvegakerfið með bundnu slitlagi, staðina á sunnanverðum Vestfjörðum; Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Búkollustjórinn Dóra einn af gleðigjöfum Borgfirðinga

Gleði ríkir meðal Borgfirðinga eystra að sjá loksins fyrir endann á uppbyggingu þjóðvegarins yfir til Héraðsflóa eftir áratugabaráttu. Liðlega tvítug stúlka er í hópi þeirra sem annast vegagerðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×