Skagamaðurinn stakk niður penna á Twitter eftir fréttir gærkvöldsins um að stjórn KSÍ hefði sagt af sér og boðað til aukaþings eftir umræðu um kynferðisbrot leikmanna karlalandsliðsins í fótbolta og getuleysi KSÍ til að taka á þeim.
„Jæja strákar, núna er búið að segja upp minnsta hlutanum af vandamálinu, stjórn KSÍ. Vandamálið liggur þó ekki þar, vandamálið á stóran uppruna í þessari „toxic“ menningu sem við höfum allir alist upp í sem íþróttamenn, hvort sem áhuga- eða atvinnumenn,“ skrifaði Garðar.
„Við höfum tækifæri núna til þess að breyta þessari menningu og sjá til þess að ungir iðkendur alist upp í heilbrigðara umhverfi þar sem kvenfyrirlitning og mismunun gagnvart minnihlutahópum heyri sögunni til. Þetta er ekki „overnight“ breyting, þetta mun taka tíma en látum þetta byrja hjá okkur! Verum fyrirmyndir!“
Naflaskoðun nauðsynleg
Garðar segir að íþróttahreyfingin á Íslandi þurfi að líta inn á við og ráðast að rót vandans. Ekkert sé í höfn þótt ný stjórn komi inn hjá KSÍ, miklu meira þurfi til.
„Íþróttahreyfingin þarf að fara í naflaskoðun og ráðast á rót vandans, það þýðir ekki bara að snyrta toppinn af trénu, meiri fræðsla til iðkenda og meiri þjálfun leiðbeinenda er lágmarkskrafa,“ skrifaði Garðar.
— Gardar Gunnlaugsson (@Gunnlaugsson9) August 30, 2021
Garðar lét einnig í sér heyra í #metoo byltingunni í vor, lýsti yfir stuðningi við þolendur og sagði óafsakanlegt hversu blindir, viljandi og óviljandi, karlmenn hefðu verið gagnvart vandamálinu. Þá, líkt og nú, hvatti hann stráka til að leggjast á árarnar og taka þátt í að uppræta þá eitruðu klefastemmningu sem viðgengst í fótboltanum.
Garðar er hann á ferðinni en hann hefur leikið með Kára í 2. deildinni í sumar. Hann lék 162 leiki í efstu deild hér á landi og skoraði í þeim 58 mörk. Hann var markakóngur Pepsi Max-deildarinnar 2016 þegar hann skoraði fjórtán mörk fyrir ÍA.
Garðar lék sem atvinnumaður í Skotlandi, Svíþjóð, Búlgaríu, Austurríki og Þýskalandi á ferlinum. Hann lék einn A-landsleik.