Atli Sveinn og Ólafur Ingi hafa verið við stjórnvölin í Árbænum síðustu tvö ár en verulega hefur hallað undan fæti hjá félaginu að undanförnu. Fylkir hefur spilað sjö deildarleiki í röð án sigurs en síðasti sigur liðsins var gegn KA 13. júlí síðastliðinn.
Fylkir tapaði 7-0 á heimavelli fyrir Breiðabliki í gær og fór við tapið niður í fallsæti í fyrsta sinn í sumar. Stjórnarmenn hjá Fylki virðast hafa fengið nóg og tilkynnt var um brottför þeirra Atla Sveins og Ólafs Inga í kvöld.
Samkvæmt heimildum Vísis hefur Fylkir þegar sett sig í samband við Rúnar Pál Sigmundsson í von um að hann vilji taka við keflinu í Árbænum.
Rúnar Páll var þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í sjö ár, frá 2014 allt þar til í vor. Hann sagði þá óvænt upp störfum í upphafi Íslandsmótsins og tók Þorvaldur Örlygsson við starfi hans.
Vísir hafði samband við Rúnar Pál í kvöld sem neitaði því ekki að Fylkir hefði haft samband við hann en kvaðst ekki getað tjáð sig frekar um málið.
Fylkir er í 11. sæti Pepsi Max-deildarinnar, fallsæti, með 16 stig, einu stigi á eftir HK og tveimur á eftir Keflavík sem eru í sætunum fyrir ofan.
Fylkir mætir KA, síðasta liði sem þeir unnu í deildinni, í næsta leik sínum þann 11. september á Akureyri. Liðið heimsækir botnlið ÍA á Akranes 19. september en síðasti leikur liðsins í deildinni er á heimavelli gegn Íslandsmeisturum Vals.