Sport

Hætta með sjálfkeyrandi rútur á ÓL eftir að keyrt var yfir blindan keppanda

Valur Páll Eiríksson skrifar
E-Palette rúturnar hafa keyrt um Ólympíuþorpið allt mótið. Þær hafa verið teknar úr umferð eftir að ein slík keyrði á blindan keppanda.
E-Palette rúturnar hafa keyrt um Ólympíuþorpið allt mótið. Þær hafa verið teknar úr umferð eftir að ein slík keyrði á blindan keppanda. Tomohiro Ohsumi/Getty Images

Bílaframleiðandinn Toyota hefur beðist afsökunar vegna oftrúar á sjálfkeyrandi rútum á vegum fyrirtækisins sem flytja keppendur til og frá í Ólympíuþorpinu á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó. Ein rútan keyrði yfir blindan keppenda í þorpinu sem getur ekki keppt á leikunum eftir slysið.

Toyota baðst afsökunar eftir slysið og hefur tekið sjálfkeyrandi e-Palette rúturnar úr umferð vegna þess. Rútan fór út fyrir sína hefðbundnu leið og yfir á gangbraut hvar hún hæfði gangandi vegfaranda.

Japanski júdókappinn Aramitso Kitazono varð fyrir rútunni þar sem hann var illa marinn og með sár eftir áreksturinn. Hann mun af völdum slyssins ekki geta keppt í júdókeppni blindra um helgina.

Akio Toyoda, forseti Toyota, bað Kitazon afsökunar vegna málsins. Toyota er styrktaraðili mótsins og voru rúturnar hluti af auglýsingu fyrirtækisins. Rúturnar hafa verið teknar úr umferð vegna slyssins en Toyoda segir fyritækið hafa orðið sekt um oftrú á tækninni á bakvið rúturnar.

Yoshiyasu Endo, þjálfari Kitazono, segir hann vera á batavegi. „Hann sér vel um sig. Það er mikil eftirsjá, en ég held að enginn sé vonsviknari en hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×