Innlent

Ríkisstjórnin fundar um næstu aðgerðir á morgun

Birgir Olgeirsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræða hér við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í gær. 
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræða hér við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.  Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin kemur saman til fundar á morgun en núverandi sóttvarnaaðgerðir renna út á föstudag. Bæði sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra hafa sagt að tilefni sé til að létta á aðgerðum.

Núverandi reglugerð tók gildi fyrir tæpum tveimur vikum en hún kveður á um 200 manna samkomutakmarkanir og grímuskyldu þar sem ekki er hægt að tryggja einn metra. Ríkisstjórnin fundar venjulega á þriðjudögum og föstudögum. Því vekur það athygli þegar hún kemur saman til fundar á fimmtudögum. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á mánudag að tilefni væri til að slaka á því faraldurinn væri á niðurleið og ástandið á Landspítala stöðugt. Þórólfur sagði að mögulega yrði hægt að notast við hraðgreiningarpróf til að rýmka reglur. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tók undir þetta þegar hún ræddi við fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund í gær og því verður forvitnilegt að sjá hvað verður tilkynnt eftir fund ríkisstjórnar á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×