Sigrún Sjöfn er ein þriggja systra sem allar hafa spilað körfubolta undanfarin ár. Á síðasta tímabili voru þær allar hluti af liði Skallagríms, ein sem þjálfari og tvær sem leikmenn. Með vistaskiptum Sigrúnar er ljóst að engin af systrunum mun koma að liði Skallagríms í vetur.
Guðrún Ósk, eldri systir Sigrúnar, hafði þjálfað lið Skallagríms frá árinu 2019 en sagði starfi sínu lausu fyrr í sumar. Arna Hrönn, yngst af systrunum þremur, samdi nýverið við Pacific Lutheran-háskólann sem staðsettur er í Washington ríki í Bandaríkjunum og mun því leika þar í vetur.
Reynsluboltinn Sigrún Sjöfn á að baki 57 leiki fyrir íslenska A-landsliðið ásamt því að hafa spilað sem atvinnumaður í bæði Frakklandi og Svíþjóð. Þá hefur hún verið einn besti íslenski leikmaður efstu deildar undanfarin ár.
Sigrún Sjöfn varð tvívegis Íslandsmeistari með KR og þrívegis bikarmeistari. Þá var hún í lykilhlutverki er Skallagrímur vann sinn fyrsta bikarmeistaratitil í sögunni árið 2020. Einnig hefur hún verið sex sinnum valin í úrvalslið efstu deildar kvenna.
Á síðustu leiktíð skoraði Sigrún Sjöfn að meðaltali 8,9 stig í leik, tók 5,7 fráköst og gaf 3,4 fráköst. Það er því ljóst að hún mun styrkja lið Fjölnis til muna. Liðið hafnaði í 4. sæti deildarinnar og tapaði svo fyrir verðandi Íslandsmeisturum Vals í undanúrslitum.