Í tilkynningu frá samtökunum segir að þetta þýði að auk kvenna, sem hafi í einu vetfangi misst öll réttindi sín, væri hinsegin fólk í Afganistan nú í enn meiri hættu en áður.
Í ljósi þeirra hörmulegu atburða sem átt hafi sér stað undanfarna daga skori stjórn Samtakanna ‘78 á íslensk stjórnvöld að skuldbinda sig án tafar til að taka á móti flóttafólki frá Afganistan og þá sérstaklega hinsegin flóttafólki.
Samtökin ‘78 hafi í tvígang komið að móttöku hinsegin flóttafólks í samvinnu við stjórnvöld og Rauða krossinn. Þau séu einnig tilbúin til þess nú og spyrja stjórnvöld hvort þau væru sömuleiðis tilbúin.