Erlent

Sam­sung-erfinginn á reynslu­lausn

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 53 ára Lee Jae-yong ræddi við fjölmiðlaeftir að honum var sleppt í morgun.
Hinn 53 ára Lee Jae-yong ræddi við fjölmiðlaeftir að honum var sleppt í morgun. AP

Samsung-erfingjanum Lee Jae-yong var sleppt úr fangelsi í Suður-Kóreu í morgun eftir að hafa fengið reynslulausn.

Hann sat inni eftir að hafa hlotið dóm í fyrir mútur og fjárdrátt í máli sem vakið hefur gríðarlega athygli í Suður-Kóreu á síðustu árum. Erlendir fjölmiðlar segja líklegt að hann snúi aftur til starfa hjá Samsung innan skamms.

Lee, sem skipar 202. sætið á lista Forbes fyrir auðugustu menn heims, sat inni í 207 daga en hann var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í janúar síðastliðnum. Málið sem um ræðir átti á sínum tíma þátt í að Park Geun-hye, forseti Suður-Kóreu, hrökklaðist frá völdum.

Lee baðst afsökunar á gjörðum sínum eftir að honum hafði verið sleppt úr fangelsi í höfuðborginni Seúl í morgun.

Þó að Lee hafi enn átt eftir að afplána ár af dómnum voru bæði stjórnmálamenn og háttsettir menn í viðskiptalífinu farnir að þrýsta á að Lee yrði sleppt þar sem talið var að fangelsisvist hans væri að tefja fyrir nauðsynlegum ákvörðunum innan þessa stærsta fyrirtækis landsins.

Dómsmálaráðuneyti Suður-Kóreu greindi frá því á mánudag að Lee fengi reynslulausn ásamt átta hundruð öðrum föngum og var þar vísað í áhrif faraldurs kórónuveirunnar á efnahagslíf landsins.

Lee hefur stjórnað Samsung frá því faðir hans, Lee Kun-hee, fékk hjartaáfall árið 2014. Rannsókn á meintum brotum hans og annarra hófst árið 2018.


Tengdar fréttir

Samsung erfinginn ákærður fyrir mútugreiðslur

Lee Jae-yong, Samsung erfinginn, eins og hann er oft kallaður, hefur verið ákærður fyrir markaðsmisnotkun í tengslum við sameiningu tveggja dótturfyrirtækja Samsung.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×