Skoðun

Langtímaáhrifin af Covid alls ekki „svolítið ýkt“

Karen Róbertsdóttir skrifar

Þann 11. ágúst var birt brot úr viðtali við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, á Vísi. Þar fullyrðir Kári að langtímaáhrifin af Covid séu „í fyrsta lagi svolítið ýkt“, að „þau eru til staðar en eru sjaldgæf“, að bóluefnin „minnka líka líkurnar á einhverskonar langtímaafleiðingum“ og að „langtíma áhrif af Covid-19 séu ekki eitt af því sem við þurfum að ströggla við hjá þeim sem eru bólusettir.“ 

Þessar fullyrðingar gætu komið þeim á óvart sem eru að sækja endurhæfingu á Reykjalundi í Mosfellsbæ, á Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði og á Kristnesspítala í Eyjafjarðarsveit, þar sem það voru nú þegar biðlistar fram á haust út af fyrri bylgjum - þrátt fyrir að færri en 3% hefðu greinst hér á landi. 

Í Bretlandi voru þá þegar fleiri en 1 milljón manna að glíma við langvarandi eftirköst af völdum COVID-19 í apríl s.l.  samkvæmt breska Office for National Statics (ONS), og fjöldinn er nú talinn vera fleiri en 2 milljónir manna samkvæmt REACT-2 rannsókninni. Langvarandi veikindi er mun algengari afleiðing hjá fólki sem sýnir einkenni sýkingar og er með jákvætt PCR-próf (með COVID-19), en með neikvætt PCR-próf (með annars konar smit).

Heimild: UK Office of National Statistics.

Það hafa verið gerðar mörg hundruð rannsóknir um tíðni langvarandi eftirkasta COVID-19, með niðurstöður oftast á milli 10% og nokkra tugi prósenta (eftir því hver og hvernig er mælt), og allt að 61% (52% meðal ungs og miðaldra fólks) í rannsókn í Noregi. Safngreining (e. meta-analysis) í vísindatímaritinu Nature fjallar um 226 rannsóknir á langvarandi áhrifum COVID-19 á fjölmörg kerfi mannslíkamans, og algeng einkenni og áhættuþætti eftir sýkingu - þar með talið meðal fólks sem var aðeins með “vægt” smit. 

Þótt SARS-CoV-2 veiran leggist til atlögu víða um líkamann og hafi margskonar slæm áhrif á líkamsstarfssemina (blóðtappar, myndun samfrumunga (e. syncytia), o.fl.) er áhrif COVID-19 á heilann sérstaklega mikið áhyggjuefni. Margskonar geðraskanir eru algengari eftir COVID-smiti. Heilatjón í grana fannst eftir COVID-19 smit, þar með talið eftir „væg” smit. Það sést lækkun í hugsunargetu eftir COVID-19 smit: -0,04SD án öndunareinkenna; -0,07SD með öndunareinkenni; -0,13SD með öndunaraðstoð heima; -0,26SD á spítala án öndunarvélar; og -0,47SD á öndunarvél. 

Til samanburðar er áhrif heilablóðfalls -0,24SD. 

Heimild: Hampshire et al (2021), Cognitive deficits in people who have recovered from COVID-19.

Alþjóðleg Alzheimer-sjúkdómsráðstefna var haldin í Denver í júlí s.l. og mikið í umræðunni voru áhrif COVID-19 með tilliti til heilabilunar

Dæmi af rannsóknum sem voru ræddar þar:

  • „Cognitive Impairment Correlates with Persistent Loss of Smell in Recovered COVID-19 Patients“ - Einstaklingar sem misstu lyktarskyn voru rannsakaðir í 3-6 mánuði eftir bötnun. Meira en helmingur átti erfitt með gleymsku og 1 af 4 voru með alvarlegar hugsanatruflanir. Alvarleikinn tengdist því að missa lyktarskynið, en ekki alvarleika sjúkdómsins í upphafi.
  • „COVID-19 Infection Associated with Uptick in Alzheimer’s Biomarkers in the Blood“ - prótín sem einkenna Alzheimer-sjúkdóminn - t-tau, NfL, GFAP, pTau-181, og UCH-L1 - mældust hærri í þeim sem misstu hugsunargetu og/eða urðu fyrir hugsanatruflunum eftir COVID-19 smit. Það voru líka ábendingar um raskanir við blóð-heilaþröskuldinn og taugungstjón. 

Samkvæmt Heather M. Snyder, forstjóra Alzheimers Association, „Þessi nýu gögn benda á óhugnanlegar atburðarásir sem leiða til langvarandi hugsunartruflana og jafnvel Alzheimer-sjúkdóms.“ 

Er fullbólusett fólk vel verndað, eins og Kári fullyrðir? Það hafa verið sambærilega fáar rannsóknir um það, því það tekur tíma að rannsaka langvarandi áhrif; og bólusetning hefur ekki verið víða í notkun í langan tíma. Fyrsta rannsóknin til að birtast er meðal fullbólusettra ísraelskra heilbrigðisstarfsmanna. Flest smit voru afar væg, en samt lentu 19% í langvarandi veikindum. Það var ekki aðeins áhrif á lífsgæði, heldur starfsgetu - af 39 sem smituðust þrátt fyrir Pfizer-bólusetningu, tók það 9 einstaklinga meira en 10 dagar eftir bötnun til að geta farið að vinna aftur, 5 meira en 14 dagar, og einn gat ekki snúið aftur til vinnu. Þessi rannsókn var gerð fyrir tilkomu Delta-afbrigðsins, þegar rof-smit (e. breakthrough infection) voru ennþá sjaldgæf. 

Langvarandi eftirköst COVID-19 eru fjölbreytt. Sumir missa bragð- og/eða lyktarskyn, eins og fyrrverandi herbergisfélagi minn, og Víðir okkur sjálfur. Hjá sumum er það alvarlegra, eins og hjá vinkonu minni í Sviss sem var lögð inn í desember, fór aldrei í öndunarvél, en er samt ennþá að glíma við langvarandi lungnabólgu. Aðrir fá síþreytu, heilaþoku, suð í eyrum, o.fl. Einkenni skána lítið eftir 12 vikur samkvæmt stóru REACT-1 rannsókninni, þar sem langflest smit voru væg; 1 af hverjum 3 sögðu að það hefði haft „merkileg áhrif á daglegt líf“. 

Heimild: REACT-1

Það er vert að benda á að tíðni innlagna eftir bötnun af COVID-19 sýkingu er mjög há. 1 af 3 sem lagðir voru inn vegna COVID-19 sýkingar í Englandi voru lagðir aftur inn (og 1 af 10 lést) innan við 5-6 mánuðum síðar. Þessi tíðni er 4-8 sinnum hærri en í jafningjahópnum, sem var vel paraður með tilliti til margra áhættuþátta. Áhrif COVID-19 var mest hjá fólki sem var yngra en 70 ára. 

Heimild: BMJ 2021;372:n693. Post-covid syndrome in individuals admitted to hospital with covid-19: retrospective cohort study.

Nokkrar orsakir fyrir langvarandi afleiðingum COVID-19 liggja undir grun. Til dæmis einkennist tjón í lungum meðal annars af blóðtöppum (SARS-CoV-2 ræðst á blóðþrýstingsprótín, ACE2) og langvarandi samfrumungum með mælanlegu veiru-mRNA. Nokkrar rannsóknir hafa lagt grunn að því að COVID-19 ræðst beint á heilann; aðrar hafa fundið óvenjulega háa tíðni af sjálfsónæmisvaldandi mótefni, t.d. andkjarnaefni og and-TG/and-CCP efni. Sjálfsónæmi virðist vera aðferð sem veiran notar til að hindra ónæmiskerfið, og það er nú verið að vinna í því að búa til blóðprufu til þess að greina langvarandi eftirköst COVID-19 vegna þessa. 

 Við metum vinnuna mjög mikils sem Kári hefur gert í genagreiningu og skimun, sérstaklega í fyrstu bylgjunni. En ég hvet hann til að kynna sér rannsóknirnar um langvarandi eftirköst COVID-19, sérstaklega tíðni og alvarleika þeirra (þar með talið eftir mild smit), áður en hann fullyrðir meira um það í fjölmiðlum. Það eru margir mjög færir rannsókna- og vísindamenn að vinna á þessu sviði sem væru eflaust ánægðir að spjalla við hann um málið.

Höfundur starfaði áður í BIRN (Biomedical Informatics Research Network) í heilarannsóknum.




Skoðun

Sjá meira


×