Fjölskylda drengsins er í felum og hundruð annarra fjölskyldna eru sagðar hafa flúið heimili sín af ótta við hefndaraðgerðir í Rahim Yar Khan í Punjab-héraði en eftir að fréttir bárust af atvikinu réðist hópur múslima á hof hindúa.
Herinn hefur verið sendur á svæðið.
Drengurinn, sem Guardian kýs að nefna ekki af ótta við afleiðingarnar fyrir hann og fjölskyldu hans, er sakaður um að hafa pissað á mottu í sal í skólanum þar sem trúarrit voru geymd. Er hann sagður hafa gert það viljandi.
Það hefur vakið undrun og hneykslan að drengurinn hafi verið kærður fyrir guðlast en það þýðir að hann verður mögulega dæmdur til dauða. Einn aðstandenda drengsins sagði í samtali við Guardian að hann gerði sér ekki einu sinni grein fyrir hvað hann væri sakaður um.
Lögunum sem banna guðlast er sagt hafa verið beitt gegn trúarlegum minnihlutahópum en þrátt fyrir að dauðarefsingunni hafi ekki verið beitt vegna guðlasts frá því að hún var tekin aftur upp árið 1986 verða ákærðir oft fyrir árásum og hafa verið myrtir af æstum múg.
Lögregluyfirvöld á svæðinu segjast vera á höttunum eftir þeim sem rústuðu hofinu og þá hefur forsætisráðherra Pakistan, Imran Khan, fordæmt ofbeldið og heitið því að yfirvöld muni byggja hofið upp á nýtt.