Innlent

Fresta landsfundi Sjálfstæðisflokksins vegna faraldursins

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins.
Frá Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Einar

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað að fresta landsfundi flokksins sem átti að fara fram síðustu helgina í ágúst um óákveðinn tíma. Þetta er í þriðja skiptið á innan við ári sem landsfundi er frestað vegna kórónuveirufaraldursins.

Í stað landsfundar verður flokksráð Sjálfstæðisflokksins kallað saman á rafrænum fundi sömu helgi, 27.-29. ágúst, að því er segir í tilkynningu á vef flokksins.

Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokkins, segir nú ljóst að enginn landsfundur verði haldinn fyrir Alþingiskosningarnar sem fara fram 25. september. Ekki sé hægt að kalla saman samkomu eins og landsfund þegar samkomutakmarkanir eru í gildi. Um 1.200 manns sóttu síðasta landsfund flokksins.

Þó að landsfundur sé gríðarlega mikilvæg samkoma fyrir flokkinn og flokksmenn hafi hlakkað til að hittast segir Þórður að það væri hvorki heimilt né ábyrgt að halda fundinn við þessar aðstæður.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki haldið landsfund frá því í mars árið 2018 en faraldurinn kom í veg fyrir að hann yrði haldinn í nóvember og aftur í vor. Á landsfundum hafa fulltrúar mótað stefnu flokksins sem stuðst er við í stefnuskrá hans fyrir kosningar.

Þórður segir að flokksráðsfundur hafi allar sömu heimildir og landsfundur til þess að samþykkja stefnu Sjálfstæðisflokksins. Á flokksráðsfundi eiga um 700 manns seturétt, þar á meðal forysta flokksins, kjörnir fulltrúar bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum, stjórnir kjördæmisráða og margir fleiri.

Dagskrá flokksráðsfundarins verður ákveðin í næstu viku en Þórður segir óhætt að reikna með því að stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir þingkosningarnar verði þar ofarlega á baugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×