Bakvörðurinn Dúi Þór Jónsson ákvað á dögunum að fara til Akureyrar og spila með Þór í úrvalsdeildinni í vetur og þá hefur framherjinn Orri Gunnarsson ákveðið að spila með Haukum í 1. deildinni.
Dúi Þór Jónsson spilaði alls 30 leiki með Stjörnunni í úrvalsdeildinni og var með 4,7 stig og 2,3 stoðsendingar að meðaltali á 10,5 mínútum í leik. Dúi átti nokkra góða leiki í úrslitakeppninni þar sem hann var með 5,3 stig og 2,2 stoðsendingar á 12,5 mínútum í leik.
Dúi sem er 20 ára er einn sigursælasti yngri flokka leikmaður landsins en hann hefur unnið marga Íslands- og bikarmeistaratitla með Stjörnunni, nú síðast Íslandsmeistaratitil með unglingaflokki Stjörnunnar. Dúi var einn leikmanna undir tuttugu ára landsliðs Íslands sem keppti í Eistlandi í júlí og var hann í byrjunarliðinu í öllum leikjum liðsins.
Orri Gunnarsson var með 2,0 stig og 0,6 fráköst að meðaltali á 6,3 mínútum í 23 leikjum með Stjörnunni í úrvalsdeildinni en á venslasamning með Álftanesi í 1. deildinni þá skoraði hann 11,0 stig og tók 3,3 fráköst í þeirri deild.
Orri hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands og þykir mikið efni. Fyrir tveimur árum var hann á reynslu í Þýskalandi m.a. hjá Alba Berlin en Orri er átján ára gamall.
Tvíburarnir Hugi og Hilmir Hallgrímssynir voru líka með Stjörnunni síðasta vetur ásamt því að hjálpa Vestra upp í úrvalsdeildina á venslasamningi. Þeir eru að vestan og ákváðu fyrr í sumar að taka slaginn með Vestraliðinu í úrvalsdeildinni.